Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um Mývatn og Laxá sett að loknu samráðferli

Mývatn
Mývatn

 

Þann 10. júlí síðastliðinn undirritaði umhverfisráðherra reglugerð um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Reglugerðin er sett á grunni laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og er nánari útfærsla á þeim.

Markmiðið með reglugerðinni er að stuðla að verndun náttúrufars, þ.e. lífríkis, jarðmyndana og landslags Mývatns- og Laxársvæðisins í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun, og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Þá á reglugerðin að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd.

Reglugerðin kveður m.a. á um að óheimilt sé að valda spjöllum eða raska lífríki, jarðmyndunum og landslagi á verndarsvæðinu, og að forðast skuli að valda spjöllum á vatnasviðinu sem raskað gætu vernd Mývatns og Laxár, og þá sérstaklega gæðum og rennsli grunnvatns. Fjallað er um umsjón verndarsvæðisins, réttindi og skyldur gesta, veiðar, ræktun, umferð, umgengni um vatn, framkvæmdir og mannvirki á svæðinu og varnir gegn mengun á vatnasviði Mývatns og Laxár svo fátt eitt sé nefnt.

Samráð umfram lagalega skyldu

Í ofangreindum lögum er kveðið á um að við setningu reglugerðarinnar skuli ráðherra afla umsagnar viðkomandi sveitarfélaga auk Umhverfisstofnunar. Þegar hafist var handa við gerð reglugerðarinnar vorið 2011 voru drög að henni send ýmsum aðilum til umsagnar, þ.á m. Skútustaðahreppi. Í ljósi þess að ráðuneytinu yfirsást að óska umsagnar Norðurþings og Þingeyjarsveitar var bætt úr því þegar vinna við reglugerðina hófst á ný fyrr á þessu ári.

Ný drög, sem byggðu m.a. á þeim umsögnum sem þegar höfðu borist, voru því send þessum tveimur sveitarfélögum til umsagnar vorið 2012. Í kjölfarið óskaði Skútustaðahreppur eftir að senda inn frekari athugasemdir við reglugerðardrögin. Við því var orðið og var umsagnarfrestur lengdur í samræmi við óskir þar um.   

Auk ofangreinds funduðu fulltrúar umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar með sveitarstjóra Skútustaðahrepps á fundi í Reykjavík á þessu ári. Í kjölfarið funduðu starfsmenn umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar einnig með fulltrúum ofangreindra sveitarfélaga á sérstökum fundi sem haldinn var í Mývatnssveit um málið. Að loknum þeim fundi fengu sveitarfélögin aftur tækifæri til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri. Loks stóð umhverfisráðuneytið fyrir  símafundi um málið með fulltrúum sveitarfélaganna. Skriflegar og munnlegar athugasemdir sveitarfélaganna voru teknar til ítarlegrar skoðunar og höfðu eftir atvikum áhrif á lokaútgáfu reglugerðarinnar.  Þannig er ljóst að samráðsferlið við sveitarfélögin vegna vinnu við reglugerðina var mun ítarlegra en gert er ráð fyrir í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.  

Að því loknu undirritaði umhverfisráðherra reglugerðina þann 10. júlí síðastliðinn, sem fyrr segir.

Reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta