Skilgreining á skóladögum í grunnskólum
Mennta- og menningarmálaráðuneyti birti í apríl sl. álit um skiptingu skóladaga í grunnskólum milli kennsludaga og annarra skóladaga. Í kjölfar viðræðna við Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila ákvað ráðuneytið að endurskoða álitið með það í huga að gefa skólum og sveitarfélögum aukið svigrúm til að skipuleggja skólahald í samræmi við framkvæmd sem hefði viðgengist í sátt milli samningsaðila, allt frá því að skólaárið í grunnskólum var lengt í tengslum við kjarasamninga árið 2001.
Samkvæmt álitinu eiga skóladagar nemenda eiga að vera að lágmarki 180 samkvæmt grunnskólalögum og ráðuneytið leggur áherslu á að nemendum sé tryggður lögbundinn árlegur starfstími. Ráðuneytið áréttar að aldrei er heimilt að hafa árlega kennsludaga færri en 170 og mikilvægt er að sveigjanleikinn, sem gefinn er í lögunum með fjölgun skóladaga, sé nýttur til að bjóða nemendum upp á fjölbreytt skólastarf miðað við aðstæður, þarfir og óskir viðkomandi skólasamfélags.
Annað megin atriði álitsins er að ráðuneytið telur að óheimilt sé að telja sem kennsludaga aðra en þá daga sem nemandi starfar í skólanum eða í vettvangsferðum utan skóla að lágmarki í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá. Ef skólar skipuleggja t.d. námsmat með þeim hætti að nemendur mæti í skólann í sérstaka prófa- eða námsmatsdaga þá teljist þeir ekki til kennsludaga nema framangreint skilyrði sé uppfyllt. Með sama hætti teljast vettvangsferðir ekki til kennsludaga nema að uppfylltum framangreindum skilyrðum.