Hoppa yfir valmynd
6. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægir áfangar í íslenskri máltækni

Hafa mikla þýðingu fyrir málrækt og bæta lífsskilyrði og framtíðarmöguleika íslenskunnar í stafrænum heimi.

Nýlega var greint frá að íslenska er komin inn í raddleit Google. Nú er hægt að biðja snjallsíma með Android stýrikerfi að finna fyrir sig sitt af hverju, senda SMS og skrifa minnispunkta með því að tala við símann á íslensku. Þetta er mjög merkilegur áfangi í máltækni hér á landi og markar tímamót ásamt verkefni Blindrafélagsins um gerð nýs talgervils fyrir íslensku, sem kom á markað í síðasta mánuði.
Talgervill er hugbúnaður sem breytir texta í tal og hægt er að keyra á ýmis konar vélbúnaði svo sem tölvum, fartölvum, símum, hraðbönkum, mp3 spilurum og fleiru.

Verkefnið Almannarómur var frumraun samstarfs sem gerir fólki á smáum málsvæðum kleift að nýta sér raddleit Google (e. Voice Search) í snjallsímum. Íslenska er meðal þrettán nýrra tungumála sem bætt var við raddleitina um miðjan ágúst. Raddleitin byggist á grunntækni sem kallast talgreining og breytir talmáli í texta.

Til að þjálfa talgreini fyrir nýtt tungumál er stuðst við upplesnar setningar (hljóðskrár) og texta þeirra. Með raddleitinni getur fólk leitað á netinu með því að tala við símann í stað þess að skrifa. Þessi tækni býður upp á marga aðra möguleika og gæti síðar nýst heyrnarlausum með því að jafnóðum mætti texta fyrir þá talað mál. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Máltæknisetur (Háskóli Íslands, Árnastofnun og Háskólinn í Reykjavík) og Google fyrirtækið í Bandaríkjunum.

Starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytis voru meðal þeirra 563 einstaklinga sem ljáðu verkefninu raddir sínar við upplestur á  meira en 123 þúsund raddsýnum. sem til þurfti.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta