Tilkynnt um val á ráðuneytisstjóra og skrifstofustjórum í nýju atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tekur til starfa laugardaginn 1. september með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og hluta efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Á fundi með starfsmönnum nýja ráðuneytisins í dag var kynnt skipurit hins nýja ráðuneytis og tilkynnt um skipan ráðuneytisstjóra og þriggja skrifstofustjóra, en þrjár skrifstofustjórastöður verða auglýstar lausar til umsóknar um helgina.
Samkvæmt skipuriti verða fjórar fagskrifstofur sem eru: Skrifstofa atvinnuþróunar, skrifstofa sjálfbærrar nýtingar, skrifstofa viðskiptahátta og skrifstofa afurða. Að auki eru þrjár skrifstofur sem vinna þvert á ráðuneytið en þær eru: Skrifstofa stefnumótunar og samhæfingar, skrifstofa fjárlaga og árangursstjórnar og skrifstofa innri þjónustu og rekstrar.
Hæfnisnefnd var ráðherra til ráðgjafar við skipan í embættin og fór ráðherra að tillögu hennar. Nefndin starfaði undir forystu doktors Ástu Bjarnadóttur mannauðsfræðings en með henni störfuðu þau Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Margrét Guðmundsdóttir formaður Félags atvinnurekenda.
Ráðuneytisstjóri verður Kristján Skarphéðinsson en hann hefur gegnt stöðu ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu sl. 10 ár. Kristján er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað í stjórnarráðinu í 25 ár, m.a. sem skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu. Staðgengill ráðuneytisstjóra verður Kjartan Gunnarsson skrifstofustjóri.
Skrifstofustjóri fjárlaga og árangursstjórnunar verður Helga Óskarsdóttir. Helga hefur verið skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í fjögur ár. Helga er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í fjármálum.
Skrifstofustjóri atvinnuþróunar verður Sveinn Þorgrímsson. Sveinn hefur verið skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu í 13 ár. Sveinn er verkfræðingur og hefur tvær meistaragráður frá Bandaríkjunum á sviði verkfræði og jarðvísinda.
Skrifstofustjóri sjálfbærrar nýtingar verður Ingvi Már Pálsson. Ingvi Már hefur verið skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu og hefur unnið í stjórnarráðinu í 12 ár. Ingvi Már er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu frá Hollandi.
Störf skrifstofustjóra viðskiptahátta, skrifstofustjóra afurða og skrifstofustjóra innri þjónustu og rekstrar verða auglýst laus til umsóknar.
Hið nýja ráðuneyti verður til húsa í Skúlagötu 4 og verður öll starfsemi nýja ráðuneytisins komin undir eitt þak þann 20. september n.k.