Hoppa yfir valmynd
7. september 2012 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra kynnti sér áherslur Austfirðinga í samgöngumálum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti sér í vikunni áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi í málaflokkum sem heyra undir ráðuneytið, meðal annars í samgöngu- og lögreglumálum. Sat ráðherra fundi á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Djúpavogi. Auk ráðherra og fulltrúa ráðuneytis var Hreinn Haraldsson vegamálastjóri með í för og fór hann yfir ýmsar  framkvæmdir sem framundan eru í fjórðungnum á næstu árum.

Innanríkisráðherra kynnti sér áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi í samgöngumálum á fundum í vikunni.
Innanríkisráðherra kynnti sér áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi í samgöngumálum á fundum í vikunni.

Jarðgangagerð verði fjármöguð með sértækum hætti

Á fundi með samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi voru ráðherra kynntar tillögur sem nefndin hyggst leggja fyrir aðalfund SSA um miðjan mánuðinn. Þar er því meðal annars fagnað að hefjast eigi handa við gerð Norðfjarðarganga á næsta ári og fagnar jafnfram þeirri breytingu sem unnið er nú að á heildarskipulagi almenningssamgangna. Minnt er á að jarðgangagerð þurfi jafnan að fjármagna með sértækum hætti. Bent er á nauðsyn þess að hefja rannsóknir og undirbúning að Fjarðarheiðargöngum og síðan Lónsheiðar- og Vopnafjarðargöngum. Þá leggur nefndin áherslu á að framkvæmdir við heilsársveg um Öxi hefjist sem fyrst en hún telur verkefnið það brýnasta í vegagerð á Austurlandi. Einnig er bent á nauðsyn þess að sinna vel viðhaldi og að fækka einbreiðum brúm.

Fram kom hjá fulltrúum í samgöngunefnd SSA að Egilsstaðaflugvöllur þurfi að vera valkostur í millilandaflugi og því sé nauðsynlegt að stækka flughlað vallarins. Einnig lögðu þeir áherslu á nauðsyn þess að halda áfram áætlunarflugi til Vopnafjarðar með tengingu við Akureyri, að lagt verði bundið slitlag á flugvöllinn við Neskaupstað og að Reykjavíkurflugvöllur verði starfræktur óbreyttur.

Innanríkisráðherra kynnti sér áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi í samgöngumálum á fundum í vikunni.

Fjarðarheiðagöng myndu styrkja íbúaþróun

Á fundi með bæjarfulltrúum á Seyðisfirði ræddu þeir nauðsyn þess að hefja undirbúningsrannsóknir vegna Fjarðarheiðarganga og sögðu öruggar samgöngur við bæinn grundvöll þess að styrkja þar ferðaþjónustu í tengslum við siglingar Norrænu. Fjarðarheiðargöng  myndu einnig styrkja samstarf við nágrannasveitarfélögin sem þegar væri margvíslegt og hefði farið vaxandi og myndu auka möguleika íbúa á Austurlandi til atvinnusóknar milli byggðarlaga. Bent var á mikilvægi embætta sýslumanns og lörgeglustjóra fyrir bæjarfélagið og hvernig ferjusiglingarnar og viðkomur skemmtiferðaskipa útheimtu margvíslega þjónustu af hálfu embættanna sem mætti efla frekar með því að færa þeim fleiri verkefni.

Ögmundur Jónasson heimsótti Henrik Hammer skipstjóra Norrænu í brúna.Fundurinn með sveitarstjórnarmönnum á Seyðisfirði fór fram um borð í Norrænu sem lá í höfn milli ferða. Tóku þeir Henrik Hammer skipstjóri og Jónas Hallgrímsson hjá Smyril Line á móti ráðherra og fylgdarliði og fyrir bæjarstjórnarmönnum fóru Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri. Lárus Bjarnason sýslumaður á Seyðisfirði sat einnig fundinn.

Vilja fá Axarveg sem fyrst

Á fundi með sveitarstjórnarfulltrúum á Djúpavogi komu sömuleiðis fram þau sjónarmið sem Andrés Skúlason kynnti að góðar og tryggar samgöngur væru grunnur að byggðaþróun og horfir sveitarstjórn til þess að uppbyggður vegur um Öxi tryggi íbúum Djúpavogs viðunandi aðgengi að Miðausturlandi. Framkvæmdin væri líka eina leiðin til að uppfylla markmið samgönguáætlunar um að ferðatími frá byggðarlagi að þjónustukjarna yrði innan við klukkustund. Bent var á að Axarvegur hafi árið 2007 verið meðal samgönguverkefna sem flýta átti til að bæta upp áhrif aflaskerðingar hjá nokkrum sveitarfélögum. Flest þau verkefni hefðu komist í framkvæmd og væri sumum lokið en röðin væri ekki enn komin að veginum um Öxi. Einnig var fjallað um fyrirhugaða breytingu á veglínu í botni Berufjarðar og lögð áhersla á að Lónsheiðargöng kæmust á áætlun þar sem leiðin um Hvalnesskriður væri varasöm og erfið í viðhaldi.

Innanríkisráðherra kynnti sér áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi í samgöngumálum.Fundinn á Djúpavogi sátu auk Andrésar þau Gauti Jóhannesson sveitarstjóri og sveitarstjórnarfulltrúarnir Þórdís Sigurðardóttir og Albert Jensson. Í lok fundar á Djúpavogi færði Gauti ráðherra forláta exi að gjöf sem smíðuð er úr hreindýrahorni.

Á fundunum þökkuðu bæði ráðherra og vegamálastjóri fyrir móttökur og upplýsingar um helstu áherslur og væntingar sveitarstjórnarfólks. Ráðherra kvaðst fyrst og fremst vera kominn til að læra og kynna sér sjónarmið og áherslur og vegamálastjóri minnti á að samgönguáætlanir væru endurskoðaðar reglulega og tækju breytingum.

Auk fundanna með sveitarstjórnarmönnum heimsótti Ögmundur Jónasson starfsstöð Vegagerðarinnar í Fellabæ svo og svæðamiðstöð Vegagerðarinnar á Reyðarfirði. Í Fellabæ tók Björn Sigurðsson verkstjóri á móti ráðherra og vegamálastjóra og á neðri myndinni sem tekin er á Reyðafirði eru með þeim Helgi Sigfússon verkstjóri, lengst til vinstri og Sveinn Sveinsson deildarstjóri.

Innanríkisráðherra heimsótti starfsstöðvar Vegagerðarinnar á Austurlandi í vikunni.

 

Innanríkisráðherra heimsótti starfsstöðvar Vegagerðarinnar á Austurlandi í vikunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta