Hoppa yfir valmynd
7. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt húsnæði líknardeildar í Kópavogi tekið í notkun

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Nýtt húsnæði líknardeildar Landspítala í Kópavogi tekið í notkun
7. september 2012

Góðir gestir.

Þegar margir leggja saman krafta sína er hægt að áorka miklu. Það sést best hér í nýju húsnæði líknardeildarinnar hér í Kópavogi. Ég er virkilega hræður yfir framlagi Oddfellowreglunnar sem nú afhendir formlega Landspítala viðbótarhúsnæði fyrir líknardeildina eftir að hafa borið hitann og þungann af kostnaði og framkvæmdum við þetta mikilvæga verkefni sem hófst um síðustu áramót.

Oddfellowreglan stóð að baki opnun líknardeildarinnar fyrir 15 árum og hefur æ síðan verði hennar trausti bakhjarl og átt stærstan þátt í öllu því uppbyggingarstarfi sem hér hefur farið fram til að stækka deildina og bæta allar aðstæður.

Ég vissi af því að um leið og áform voru kynnt um að flytja starfsemi líknardeildarinnar á Landakoti í Kópavog síðastliðið haust tóku Oddfellowar að fjalla um hvernig reglan gæti komið að því verki. Eftir kynningu Landspítalans á fyrirhuguðum áformum fyrir stjórn Stórstúkunnar og Styrktar- og líknarsjóði Oddfellowreglunnar tóku hjólin að snúast, málið var kynnt í regludeildum og niðurstaðan lá fljótlega fyrir, þess efnis að þetta væri kjörið málefni fyrir Oddfellowa til að sameinast í að leggja góðu málefni lið, með sjálfboðavinnu eða fjárframlögum. Þetta gekk svo sannarlega eftir og ekkert verið að tvínóna við hlutina. Í janúar var hafist handa og frá þeim tíma hafa hundruð sjálfboðaliða, karlar og konur, komið að verkinu.

Árangurinn sjáum við í dag. Aðstæður á líknardeildinni hafa verið stórbættar. Legurúmum hefur verið fjölgað úr átta í þrettán og áfram verða fjögur rúm á fimm-daga deild. Aðstaða fyrir fjölskyldur og aðstandendur hefur einnig verið bætt með sérstöku fjölskylduherbergi og fleira mætti telja.

Sú starfsemi sem fram fer á líknardeildinni er einstök, krefst mikillar þekkingar og þverfaglegs samstarfs fagfólks og miklu skiptir að sjúklingar og aðstandendur sem hér fá þjónustu búi við góðar aðstæður í vinsamlegu og fallegu umhverfi. Þessi skilyrði eru öll fyrir hendi hér og fyrir það er ég afar þakklátur, jafnt Oddfellowum og stjórnendum og öðru starfsfólki Landspítala.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa lagt lóð á vogarskálarnar og staðið fyrir þessari framkvæmd af ósérhlífni, umhyggju og virðingu fyrir verkefninu.

- - - - - - - - - - - - - - - - - -
Talað orð gildir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta