Tuttugu ára afmæli héraðsdómstóla fagnað
Héraðsdómstólar landsins fagna því um þessar mundir að 20 ár eru liðin frá stofnun þeirra og var af því tilefni efnt til umræðufundar um stefnumótun héraðsdómstóla og dómstólaráðs. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði samkomuna í upphafi og sagði hann flesta þeirrar skoðunar að stigið hafi verið framfaraspor með aðskilnaði framkvæmdavalds og dómsvalds með setningu laga um héraðsdómstólana.
Auk ávarps ráðherra flutti Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, ávarp um efnið frammi fyrir hverju standa dómstólar á afmælisári og þau Guðmundur Sigurðsson, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Ingibjörg Ingadóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Jónas Þór Guðmundsson, formaður LMFÍ og Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari ræddu efnið héraðsdómstólarnir og starfsemi þeirra á liðnum árum. Síðan var fjallað um stefnumótun í hópavinnu og niðurstöður kynntar í lok dags.