Leifar af lyfjum og hreinlætisvörum greinast í skólpi
Ný rannsókn sýnir að lyfjaleifar og leifar af hreinlætisvörum, s.s. sápum, hársnyrtivörum og kremum, mælast í skólpi á Íslandi. Magn lyfja og hreinlætisvöru var þó í flestum tilfellum minna í skólpsýnum sem tekin voru hér á landi en í sýnum frá öðrum Norðurlöndum.
Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem Matís tók þátt í þar sem Norðurlöndin voru borin saman. Íslensku sýnin voru tekin við dælustöðina við Klettagarða, úr brunni við Landsspítala í Fossvogi, við dælustöðina á Akureyri og við dælustöðina í Hveragerði.
Í flestum tilfellum var magn lyfja og hreinlætisvöru minna í íslenskum sýnum en í sýnum frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Í einstaka tilfellum greindist þó meira magn lyfja í íslenskum sýnum. Má þar nefna ibuprofen (verkja- og bólgueyðandi lyf), estradiol (getnaðarvarnarlyf) og Atenolol (hjartalyf) en þessi efni eru ekki hreinsuð úr skólpi hér á landi.
Í skýrslunni voru ekki dregnar neinar ályktanir um umhverfisáhrif efnanna heldur var markmið rannsóknarinnar að afla upplýsinga um hvort efnin séu til staðar svo hægt sé að forgangsraða rannsóknum og efnasamböndum sem nauðsynlegt þykir að fylgjast með.
Skýrslan „PPCP monitoring in the Nordic Countries – Status Report“