Stór hluti matar á veitingastöðum endar í ruslinu
Mötuneyti og veitingastaðir í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku henda 456 þúsund tonnum af mat árlega. Magnið samsvarar 18 kílóum á hvern íbúa þessara landa.
Nýlega gaf norræna ráðherranefndin út skýrslu um matarsóun og leiðbeiningar fyrir veitingamenn um hvernig draga megi úr henni. Skýrslan byggir á eldri rannsóknum og spurningakönnun sem gerð var í löndunum fjórum í janúar síðastliðnum.
Í niðurstöðunum er aðeins tekið tillit til þess matar sem hefði verið hægt að borða en ekki úrgangs á borð við kartöfluflus og dýrabein. Líkur eru leiddar að því að sennilega sé enn meiri mat hent í mötuneytum en skýrslan gefur til kynna. Þannig sé súpum, sósum og drykkjum skolað niður um niðurfallið en ekki hent í ruslið og því ná mælingar ekki til þess háttar matvæla. Þá er ekki tekið tillit til matar sem sóttur er á veitingastaði. Hins vegar nær rannsóknin til matar sem hent er meðan á matseldinni stendur og þeirra matarleifa sem matargestir skilja eftir sig.
Í skýrslunni er bent á að hægt sé að draga úr matarsóuninni og í því skyni hafa verið gefnar út leiðbeiningar til veitingafólks. Í þeim er að finna hagnýt ráð á borð við að skipuleggja matseðilinn þannig að fersk hráefni nýtist í nokkra rétti, að nýta afganga í súpur, sósur og soðkraft og að bjóða mismunandi stærðir matarskammta.
Skýrslan „Prevention of food waste in restaurants, hotels, canteens and catering“ ásamt leiðbeiningum.