Tjón af völdum fárviðris
Mikið tjón hefur orðið á rafmagnslínum á Norð-Austurlandi af völdum fárviðrisins sem geysaði þar um síðustu helgi. Auk þess hafa bændur orðið fyrir umtalsverðum fjárskaða og rafmagnsleysi hefur valdið miklu tjóni og margvíslegum óþægindum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í dag og gær haldið uppi fyrirspurnum um ástandið í þeim sveitum, þar sem fárviðrið geysaði um helgina. Þegar liggur fyrir að umtalsverðir fjárskaðar hafa orðið, en umfang þeirra verður ekki ljóst fyrr en að nokkrum tíma liðnum.
Ráðuneytið átti í dag fund með fulltrúum Bændasamtaka Íslands og Bjargráðasjóðs, þar sem m.a. var rætt um hvernig Bjargráðasjóður væri viðbúinn því að mæta umtalsverðu búfjártjóni. Ljóst er að koma mun til kasta sjóðsins varðandi tjónabætur og möguleg fjármögnun verður skoðuð á næstu dögum.
Þá hefur ráðuneytið aflað sér upplýsinga um stöðu rafmagnsmála hjá RARIK og Landsneti. Þar hefur verið unnið hörðum höndum að viðgerðum á þeim svæðum sem hafa orðið verst úti. Vonir standa til að alls staðar verði komið rafmagn á í kvöld.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra mun gera ríkisstjórninni grein fyrir stöðu þessara mála nk. föstudag.