Hoppa yfir valmynd
13. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Dregið úr barnadauða á heimsvísu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Bergsteinn Jónsson, verkefnastjóri UNICEF á Íslandi og Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Bergsteinn Jónsson, verkefnastjóri UNICEF á Íslandi og Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Samkvæmt nýútkominni skýrslu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur dregið úr barnadauða á heimsvísu og marktækur árangur náðst við að ráðast gegn helstu þáttum sem valda honum.

Árið 1990 létust árlega 12 milljónir barna yngri en fimm ára en fjöldi þeirra er nú 6,9 milljónir. Ár hvert hefur hún farið lækkandi, þrátt fyrir að á sama tíma hafi fólki fjölgað í heiminum.

Í skýrslu UNICEF kemur fram að dauðsföllum af völdum mislinga og lömunarveiki hefur fækkað mikið á heimsvísu. Einnig deyja færri börn nú en áður vegna lungnabólgu, niðurgangspesta og malaríu.

Í fréttatilkynningu sem UNICEF sendi frá sér í tilefni af útkomu skýrslunnar segir að árangurinn í baráttunni hingað til megi meðal annars rekja til sameiginlegra skuldbindinga ríkisstjórna, veitenda þróunaraðstoðar, frjálsra félagasamtaka, stofnana Sameinuðu þjóðanna, vísindamanna, heilbrigðisstarfsfólks og almennings.

Síðan í júní hefur meira en helmingur ríkja í heiminum formlega heitið því að halda áfram baráttunni gegn barnadauða. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirritaði nú í morgun slíkt heit fyrir Íslands hönd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta