Starfshópur Norðurskautsráðsins fundar í Reykjavík
Starfshópur Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun fundar í Reykjavík 17.-19. september n.k. og verður þar m.a. fjallað um tvö stór verkefni sem Ísland tekur þátt í að leiða innan ráðsins.
Í fyrsta lagi er um að ræða vinnu við gerð viðamikillar skýrslu um mannfélagsþróun á norðurslóðum sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar heldur utan um, en skýrslan er unnin í samvinnu fjölmargra sérfræðinga frá norðurskautsríkjunum og taka Kanadamenn og Grænlendingar þátt í að leiða verkefnið ásamt Íslandi.
Í öðru lagi er um að ræða úttekt og kortlagningu á innviðum er tengjast siglingum og flugsamgöngum á norðurheimskautsvæðinu. Bandaríkjamenn leiða það verkefni ásamt Íslandi og fjölmargir íslenskir sérfræðingar taka þátt í þróun þess.
Í tengslum við fundinn verður staðið fyrir stuttri kynningu á samgönguverkefninu kl.12.00 n.k. mánudag 16. september í Hornsílinu, fundarsal í Víkinni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Grandagarði 8.