Hoppa yfir valmynd
14. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Degi íslenskrar náttúru fagnað á fjölbreyttan hátt

Útikennsla í Ævintýraskógi.
Útikennsla í Ævintýraskógi.

Gönguferðir, ratleikir, hjólatúrar, fjallgöngur, opin söfn og sýningar, fyrirlestrar, opnun heimasíðna, ráðgjöf og fræðsla um íslenska náttúru – það verður fjölbreytt dagskrá með viðburðum í öllum landshlutum, ásunnudaginn, 16. september, þegar Íslendingar fagna degi íslenskrar náttúru.

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra mun í tilefni dagsins veita Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á sérstakri hátíðarsamkomu í Árbæjarsafni sem hefst klukkan 14:00 á sunnudag.

Eftirtaldir eru tilnefndir til Fjölmiðlaverðlaunanna 2012:

  • Tímaritið Fuglar fyrir umfjöllun um fugla í náttúru Íslands.
  • Herdís Þorvaldsdóttir fyrir heimildamynd sína „Fjallkonan hrópar á vægð“ en hún fjallar um landeyðingu og afleiðingar ofbeitar sauðfjár hér á landi.
  • Rúnar Pálmason, blaðamaður á Morgunblaðinu, fyrir ítarlega umfjöllun um akstur utan vega.

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar.  

Fjölbreytt dagskrá

Meðal viðburða má nefna að Náttúrufræðistofnun Íslands tekur á móti almenningi á Akureyri og í Garðabæ og greinir náttúrugripi sem fólk hefur með sér, svo sem. steina, bein, skeljar oþh. Þá mun Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands bjóða almenningi kennslu í söfnun og sáningu birkifræs við húsnæði LBHÍ í Keldnaholti.

Almenningi er boðið í gönguferðir, eins og sveppagöngu í Eyjafjarðarsveit, fjallgöngu á Grænafell við Reyðarfjörð, göngu um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og frá Sólmundarhöfða að Breið á Akranesi sem og fræðslugöngu um Svínahraun í Garðabæ.

Ýmis söfn verða opin, en þar má nefna Melrakkasetur á Súðavík, Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað, Surtseyjarstofa í Vestmannaeyjum og Sagnagarður Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Þá verður sýningin „Lífið í Vatnsmýrinni“ opin í Norræna húsinu og efnt til ratleiks í tengslum við hana. Grasagarðurinn í Reykjavík verður einnig með grænan og vænan náttúruratleik.

Í fyrirlestrum verða sagðar „Nýjustu fréttir af kúluskít“ á Háskólatorgi, konur segja veiðisögur í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri og í Öræfum verður hægt að hlýða á erindi um gosið mikla í Öræfajökli 1362 sem hafði afdrifaríkar afleiðingar.

Þá verður upphaf Samgönguviku markað með Hjólaævintýri fjölskyldunnar í þremur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ efnir til eins árs afmælishátíðar og tilkynnt verður um niðurstöður ljósmyndasamkeppni Umhverfisstofnunar svo eitthvað sé nefnt.

Hér er fátt eitt nefnt en ítarlega dagskrá Dags íslenskrar náttúru er að finna á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta