Hoppa yfir valmynd
14. september 2012 Utanríkisráðuneytið

Lagt til að framlög til þróunarmála hækki um 1 milljarð og áfram hagrætt í rekstri utanríkisráðuneytis

Lagt er til að framlög Íslands til þróunarmála verði hækkuð um ríflega 1 milljarð króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem lagt var fram á Alþingi í vikunni. Áfram er þó hagrætt í rekstri utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofa. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gerði þinginu í dag grein fyrir þætti utanríkisráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu.

Umfangsmesta breytingin er hækkun á framlögum Íslands til þróunarmála um rúmlega 1 milljarð króna. Hækkunin er í samræmi við ályktun Alþingis um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014 sem samþykkt var einróma í júní 2011. Í ályktuninni kemur fram að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamstarfs og er gert ráð fyrir að framlögin hækki á tímabilinu 2011 til 2014 úr 0,21% í 0,28% af vergum þjóðartekjum.

Utanríkisráðherra vakti athygli á því að greining á tvíhliða þróunarsamvinnu árið 2011 hafi leitt í ljós að í 79,4% verkefnanna væri það sérstakt markmið að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna og væri það ríflega 8% aukning á milli ára. 

Þá ræddi utanríkisráðherra norðurslóðamál og sagðist hafa, í ljósi þingsályktunartillögu frá 10. maí 2010, þar sem Alþingi skorar á ríkisstjórnina að kanna möguleika á opnun sendiskrifstofu á Grænlandi, hafið skoðun á möguleikum þess að opna nýja ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi. Hann benti þó jafnframt á að í frumvarpinu lækkaði fjárveiting til sendiráða Íslands um 54,6 m.kr. að raungildi og eru þau rekin á lágmarkskostnaði. Útsendum starfsmönnum hefur  verið fækkað um fjórðung frá árinu 2004 en þá voru þeir 70 en eru nú 53. Samhliða fækkun starfsfólks hefur álagið á sendiskrifstofur aukist vegna nýrra verkefna og með flutningi verkefna frá starfsstöðvum sem hefur verið lokað.

Umræða á Alþingi í dag um fjárlagafrumvarpið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta