Málshöfðun gegn Eftirlitsstofnun EFTA
Íslenska ríkið höfðaði 4. september 2012 mál fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg til ógildingar á hluta ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 4. júlí sl. um ríkisaðstoð. Með stefnu ríkisins á hendur ESA er krafist ógildingar á þeim hluta ákvörðunarinnar sem varðar sölu ríkisins á fasteignum á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli til fyrirtækisins Verne ehf. árið 2008.
Í ákvörðuninni komst ESA að þeirri niðurstöðu að söluferli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) hefði ekki verið nægilega opið og gagnsætt til þess að fullyrða mætti að aðilar á markaði hefðu á fullnægjandi hátt getað kynnt sér umræddar fasteignir og boðið í þær. Þar með væri ekki unnt að fullyrða að markaðsverð hafi fengist fyrir eignirnar.
Íslensk stjórnvöld telja þvert á móti að söluferlið hafi verið auglýst á fullnægjandi hátt og opið öllum hugsanlegum kaupendum og að uppfylltar hafi verið leiðbeiningarreglur ESA um sölu á fasteignum hins opinbera. Þær kveða á um að söluferli sé nægilega opið ef það er auglýst í innlendum blöðum eða birt með öðrum viðeigandi hætti. Í málinu var bent á að Kadeco auglýsti á sínum tíma fasteignir á varnarsvæðinu í helstu dagblöðum landsins, þar sem vísað var á frekari upplýsingar um eignirnar á vef félagsins. Þannig hafi allir hugsanlegir kaupendur haft möguleika á að kynna sér og bjóða í þær eignir sem seldar voru Verne. Í umræddum leiðbeiningarreglum ESA kemur fram að sala á eignum fari ótvírætt fram á markaðsvirði þegar að henni er staðið með nægilega vel auglýstu, opnu og skilmálalausu söluferli, þar sem besta eða eina innsenda tilboðinu er tekið. Slík sala geti því ekki falið í sér ríkisaðstoð til handa kaupandanum.
Þess má geta að Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu í stjórnsýsluúttekt árið 2008 að seldar fasteignir á fyrrum varnarsvæðinu hafi verið auglýstar með fullnægjandi hætti og hagsmuna ríkisins hafi verið gætt við ráðstöfun þeirra.
Í stefnunni byggir íslenska ríkið meðal annars á því að ESA hafi ekki rannsakað tilhlýðilega þann þátt málsins sem varðar sölu fasteignanna og að stofnunin hafi ekki rökstutt ákvörðunina með fullnægjandi hætti.
Ísland hefur ekki áður höfðað mál fyrir EFTA-dómstólnum á hendur ESA. Fallist dómstóllinn á sjónarmið Íslands mun sá hluti ákvörðunarinnar sem um ræðir verða felldur úr gildi og ESA þarf að taka viðkomandi atriði til skoðunar að nýju.
Stefnan er birt í heild á vef EFTA-dómstólsins og hefur málið fengið númerið E- 9/12.
Sjá einnig fréttatilkynningu ráðuneytisins vegna ákvörðunar ESA 4. júlí 2012.