Hoppa yfir valmynd
18. september 2012 Dómsmálaráðuneytið

Ísland segir upp samstarfssamningi við Noreg um kaup á björgunarþyrlum

Ríkistjórnin samþykkti í morgun tillögu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að falla frá samstarfssamningi við Norðmenn um kaup á nýrri björgunarþyrlu sem gerður var 30. nóvember 2007.

Hér að neðan er sameiginleg yfirlýsing Ögmundar Jónassonar innanríksráðherra og dómsmálaráðherra Noregs, Grete Faremo:

Ísland segir upp samstarfssamningi við Noreg
um kaup á björgunarþyrlum


Íslensk yfirvöld hafa ákveðið að hætta samstarfi við Noreg um kaup á björgunarþyrlum vegna mikils aðhalds í ríkisútgjöldum. Kaup á nýjum björgunarþyrlum krefjast mikilla fjárfestinga sem ekki er unnt að ábyrgjast á næstu árum. Þess í stað áforma íslensk stjórnvöld að bjóða út langtímaleigu á tveimur þyrlum til viðbótar við núverandi þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að tryggja að hér verði þrjár björgunarþyrlur tiltækar.

Þann 30. nóvember 2007 undirrituðu dómsmálaráðherrar Íslands og Noregs samstarfssamning um kaup á nýjum langdrægum björgunarþyrlum. Frá því samningurinn var undirritaður hafa löndin tvö í sameiningu undirbúið kaup á einni nýrri björgunarþyrlu fyrir Ísland og var afhendingartími áætlaður á árunum 2018-2020 auk þess sem miðað var við kauprétt á tveimur öðrum þyrlum til viðbótar.

Samstarfið milli Íslands og Noregs um þyrlukaupin hefur verið hreinskiptið og gott og norsk stjórnvöld hafa lýst skilningi sínum á þeirri stöðu sem Ísland er í og á þeirri ákvörðun sem íslensk stjórnvöld hafa tekið um að segja upp samstarfssamningnum. Innanríkisráðherra Íslands hefur sent dómsmálaráðherra Noregs formlegt bréf þar sem samstarfssamningnum er sagt upp. Ekki er gert ráð fyrir því að ákvörðun þessi muni hafa áhrif á eða fresta innkaupaferli Norðmanna á nýjum björgunarþyrlum fyrir Noreg.

Ráðherrarnir eru einnig sammála um að uppsögn samstarfssamningsins um kaup á björgunarþyrlum hafi ekki áhrif á hina almennu samstarfsyfirlýsingu landanna í öryggis- og varnarmálum sem undirrituð var 26. apríl 2007.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta