Enska er algengasta erlenda tungumálið í nær öllum ríkjum Evrópu
Eurydice, sem safnar og vinnur úr upplýsingum um menntamál í Evrópu, hefur gefið út ritið Key Data on Teaching Languages in School in Europe 2012. Í ritinu eru umfangsmiklar upplýsingar um fyrirkomulag kennslu í erlendum tungumálum í 32 ríkjum í Evrópu. Þar eru ýmsar tölfræðilegar upplýsingar en einnig er borið saman fyrirkomulag og innihald í kennslu erlendra tungumála, hvenær nemendur hefja nám í erlendu tungumáli og hversu lengi námið varir. Einnig eru þar upplýsingar um menntun og endurmenntun tungumálakennara í ríkjum Evrópu.
Þriggja ára börn í Belgíu læra erlent tungumál
Algengast er að kennsla í erlendu tungumáli hefjist þegar nemendur eru á bilinu sex til níu ára. Á Íslandi hefst kennsla í ensku að jafnaði þegar nemendur eru 9 ára og í dönsku við 11 ára aldur. Í þýskumælandi hluta Belgíu hefst kennsla erlendra tungumála enn fyrr eða við þriggja ára aldur og á Möltu við fimm ára aldur. Í flestum ríkjum Evrópu eru nemendur skyldaðir til að leggja stund á nám í tveimur erlendum tungumálum í a.m.k. eitt ár. Skólaárið 2009/2010 stunduðu um 61% nemenda í unglingastigi í Evrópu nám í tveimur eða fleiri erlendum tungumálum og er það aukning um 14,1% frá skólaárinu 2004/2005.
Enska vinsælasta tungumálið
Enska er algengasta erlenda tungumálið í nær öllum ríkjum Evrópu og sýna tölur að þeim nemendum, sem læra ensku sem fyrsta erlenda tungumálið, hefur fjölgað á öllum skólastigum síðan skólaárið 2004/2005. Í flestum ríkjum er annað hvort þýska eða franska næst algengasta erlenda tungumálið sem nemendur læra og þar á eftir kemur spænska.
Stuðningur við annars máls kennslu nemenda af erlendum uppruna
Í öllum löndum er stuðningur við kennslu tungumáls nemenda af erlendum uppruna nema í Tyrklandi. Tvær leiðir eru einkum farnar í því sambandi, nemendur fá annað hvort stuðning í blönduðum bekkjum með jafnöldrum sínum eða þeir eru í sérstökum móttökubekkjum og fá þar stuðning við hæfi. Víða eru báðar leiðir farnar en í mörgum löndum er eingöngu um beina blöndun að ræða.
Færniþættir í námskrám
Í námskrám margra landa er áhersla lögð á að efla færni nemenda í hlustun og munnlegri tjáningu um leið og tungumálanám hefst. Við lok skyldunáms er hins vegar lögð jöfn áhersla á færniþættina fjóra, þ.e. hlustun, tal, lestur og ritun í námskrám allra ríkja Evrópu.