Norrænu samstarfsráðherrarnir héldu fund á Svalbarða
Árlegur fundur norrænu samstarfsráðherranna var haldinn í Longyearbænum á Svalbarða á dögunum. Allir norrænu ráðherrarnir tóku þátt í fundinum, þ.m.t. ráðherrar frá sjálfstjórnarlöndunum Álandi, Færeyjum og Grænlandi. Meginefni fundarins var fjárhagsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir næsta ár, m.a. með tilliti til stöðu efnahagsmála í Evrópu.
Þá voru framtíðarhorfur norræns samstarfs ræddar og áhersla næsta árs á samstarf á sviði heilbrigðismála, sem norrænu forsætisráðherrarnir áttu frumkvæði að. Ráðherrarnir kynntu sér einnig ýmsa starfsemi á Svalbarða, m.a. fræbankann sem varðveitir fræ frá öllum heimshornum og er grafinn djúpt í bergið.