Hoppa yfir valmynd
20. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vel heppnað HRINGÞING um menntamál innflytjenda

Fjallað var um stöðu og framtíð menntamála innflytjenda á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu á 250 manna þingi sem haldið var 14. september sl.
HringÞing 2012
HringÞing
Helsta markmið þingsins var að skapa samræðuvettvang þeirra fjölmörgu sem koma að menntamálum innflytjenda. Leitað var álits þinggesta á forgangsröðun verkefna við þróun þessara mála og rætt hver skuli vera helstu forgagnsverkefni á sviði menntamála innflytjenda í framkvæmdaáætlun, sem mótuð verður á næstu misserum. Kynnt fjölmörg áhugaverð og hagnýt verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda á öllum skólastigum og athyglisverðar hringborðsumræður voru um orðræðuna í samfélaginu gagnvart innflytjendum. Einnig voru áhugaverðar hringborðsumræður um kennaramenntun fyrir kennslu innflytjenda. Þinggestir voru virkir allan daginn og fram kom mikil ánægja meðal þeirra um að fá tækifæri að koma sjónarmiðum á framfæri um helstu úrlausnarefni á þessu sviði og jafnframt  fá tækifæri til að kynnast ýmsum þróunarverkefnum.

Gróska í menntamálum

Það er aðdáunarvert hversu mikil gróska hefur verið í skólastarfi á öllum skólastigum á undanförnum árum þrátt fyrir þrengingar í samfélaginu. Ég hef fengið að kynnast ýmsum verkefnum þar sem skólar hafa brugðist við breyttu samfélagi, m.a. vegna fjölgunar nemenda af erlendum uppruna, og þróað námsframboð við hæfi, bæði með og án formlegs stuðnings. Spyrja má hins vegar hvort  einhverjir veikleikar séu sjáanlegir í stefnumótun og þá hverjir helstir í tengslum við menntun innflytjenda á öllum skólastigum, þarf að endurskoða lagarammann um menntakerfið, reglugerðir, aðalnámskrár, eða aðrar stjórnvaldsskipanir vegna samfélagsbreytinga“, sagði Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra m.a. í ávarpi sínu á þinginu.

Innflytjendur eru auðlind

Katrín gerði einnig að umtalsefni hve miklar breytingar hefðu orðið á íslensku samfélagi á undanförnum árum og áratugum og það væri orðið mun fjölmenningarlegra en áður. Í því sambandi ítrekaði hún mikilvægi þess að fólk af erlendum uppruna fengi tækifæri til að læra íslensku sem annað tungumál og að í boði væri fjölbreytt nám í íslensku. Hún benti einnig á mikilvægi móðurmálsins og sagði m.a. „Það er talinn ávinningur fyrir sérhvern einstakling að hafa vald á mörgum tungumálum og fjöltyngdir einstaklingar eru afar verðmætir fyrir samfélagið. Þegar fjölskyldur flytjast milli landa er auðveldara fyrir þær að halda tengslum við heimaland sitt ef þær viðhalda móðurmálinu. Börn í slíkum fjölskyldum geta betur skilið og tileinkað sér menningararf foreldranna ef þau kunna móðurmál þeirra. Sterkt móðurmál er ekki einungis mikilvægt fyrir samskiptin í fjölskyldunni það auðveldar líka börnum að tileinka sér íslensku sem annað tungumál  og góður grunnur í móðurmáli er talinn grundvallaratriði í máltöku annars máls. Fyrir tvítyngd og fjöltyngd börn skiptir miklu máli að búa við ríkt málumhverfi á báðum tungumálunum og öðlast tækifæri til þess að þroska og þróa málvitund sína og færni í samskiptum jafnt og þétt.“

  • Hægt er að nálgast ýmislegt efni frá þinginu og myndir á vef þingsins, http://tungumalatorg.is/hringthing og þar er einnig hægt að horfa á upptöku frá hluta þingsins.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta