Fimm frumvörp ráðherra komin til velferðarnefndar
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur mælt fyrir fimm lagafrumvörpum frá því að Alþingi hóf störf 11. september síðastliðinn og eru þau nú til umfjöllunar í velferðarnefnd þingsins. Samkvæmt þingmálaskrá mun ráðherra leggja fram 29 frumvörp á þessu þingi, 24 þeirra eru ný þingmál en fimm eru endurflutt.
Frumvörpin sem ráðherra hefur mælt fyrir eru eftirtalin: Frumvarp til breytinga á lögum um lækningatæki sem hefur það markmið að styrkja og efla eftirlit með lækningatækjum. Frumvarp til breytinga á lögum nr. 80/2011 um breytingu á barnaverndarlögum sem kveður á um frestun á fyrirhugaðri tilfærslu heimila og stofnana fyrir börn frá sveitarfélögum til ríkisins um eitt ár, til 1. janúar 2014. Frumvarp til laga um málefni innflytjenda sem ætlað er að renna lagastoðum undir starfsemi á sviði málefna innflytjenda sem þegar eru til staðar og styrkja þannig stöðu og skipulag þessara mála. Frumvarp til breytinga á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum lýtur að innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis í lyfjakostnaði sjúkratryggðra sem velferðarráðuneytið undirbýr í samráði við stofnanir sem málið varðar. Samkvæmt verkáætlunum vantar nokkuð upp á að Sjúkratryggingastofnun Íslands geti tekið upp nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. október næstkomandi eins og lögin gera ráð fyrir. Með hliðsjón af því er lagt til að gildistöku laganna, að því er varðar miðlægan lyfjagreiðslugrunn, verði frestað til 1. janúar 2013.
Eins og fram kemur í þingmálaskrá sem lögð var fram með stefnuræðu forsætisráðherra um þau mál sem ríkisstjórnin áætlar að leggja fram á 141. löggjafarþingi mun velferðarráðherra leggja fram 29 frumvörp, 24 þeirra eru ný þingmál en fimm endurflutt.