Hoppa yfir valmynd
25. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Auknar kröfur eru gerðar til innra eftirlits með öryggi sundgesta skv. breytingum á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010, sem öðlast gildi í dag. Heimilt er við vissar aðstæður á sundstöðum sem eru með einfalda uppbyggingu að starfsmaður sinni laugarvörslu og afgreiðslu samtímis. Þá er börnum heimilt að fara ein í sund frá og með 1. júní það ár  sem þau verða tíu ára.

Reglugerðin felur í sér að rekstraraðila sundstaðar ber að gera skriflega áætlun um öryggi gesta sem feli í sér almennt áhættumat og áætlun um forvarnir. Er þetta liður í innra eftirliti sundstaðarins en rekstraraðila ber að grípa til viðeigandi aðgerða í samræmi við niðurstöður áhættumatsins til að auka öryggi baðgesta.  Til að auðvelda þessa vinnu verður  gefin út Öryggishandbók fyrir sund- og baðstaði sem hægt verður að nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Breytingarnar gera ráð fyrir að á þessum sundstöðum þar sem vakt og afgreiðsla er í sama rými sé heimilt að laugarvörður sinni einnig afgreiðslu. Þetta gildir á ákveðnum tímum á framagnreindum sundstöðum þar sem vakt og afgreiðsla eru í sama rými og yfirsýn úr rýminu er þannig að auðvelt er að fylgjast með gestum í laug um leið og afgreiðsla fer fram. Heimildarákvæði þetta gildir einungis fyrir laugar þar sem gestafjöldi í laug er að meðaltali undir 10 gestum á ársgrundvelli á þeim tíma dags sem um ræðir og skulu gestir upplýstir um þetta fyrirkomulag laugargæslunnar.

Þá hafa þær breytingar verið gerðar að aldurstakmörk sem kveða á um að börn þurfi að vera tíu ára til að fara ein í sund miðast nú við 1. júní árið sem börnin verða tíu ára, en ekki afmælisdag barnsins líkt og áður. Er miðað við þessa dagsetningu þar sem þá hafa börnin lokið sundnámi í 4. bekk. Ákvæðið er að höfðu samráði við Félag íslenskra barnalækna og Íþróttafræðisetur Háskóla Íslands á Laugarvatni.

Þá er í reglugerðinni nýtt ákvæði um skyldu gesta til að hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða og er laugarverði heimilt að vísa gesti úr laug telji vörðurinn það nauðsynlegt til að tryggja öryggi á sundstaðnum.

Loks eru gerðar ítarlegri kröfur til hæfnisprófs sem starfsmenn sund- og baðstaða þurfa að ljúka.

Reglugerð nr. 773/2012 um breytingu á reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta