Hoppa yfir valmynd
28. september 2012 Utanríkisráðuneytið

Hahn kynnir sér stöðu byggðamála á Íslandi

Stefán Haukur og Johannes Hahn

Johannes Hahn, sem fer með byggðamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, er staddur hérlendis  til að kynna sér stöðu byggðamála á Íslandi. Hahn á fundi með ráðamönnum og heldur svo síðar í dag til Egilsstaða, í Mývatnssveit og til Húsavíkur þar sem hann kynnir sér byggðaþróun og svæðisbundin verkefni.

Hahn átti í morgun fund með aðalsamningamanni Íslands gagnvart ESB, Stefáni Hauki Jóhannessyni, þar sem farið var yfir stöðuna í samningum Íslands og Evrópusambandsins varðandi byggðamál. Samningsafstaða Íslands í byggðamálum hefur verið birt en samningaviðræður eru ekki hafnar. Stefán Haukur lagði á fundinum áherslu á að fjarlægð, strjálbýli, staðhættir, veðurfar og efnahagur sem háður er fáum framleiðsluvörum hefði áhrif á atvinnu- og uppbyggingarskilyrði á Íslandi og að taka yrði tillit til þessa í aðildarsamningi.

Hahn fjallaði um áherslur ESB í byggðamálum og lagði áherslu á mikilvægi stefnunnar við að styrkja svæði sem eiga undir högg að sækja en byggðastefna ESB tekur sérstakt tillit til strjálbýlla svæða og jaðarsvæða.

Þá hefur Hahn átt fundi með Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra,  Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta