Vatnavá – hættumat, eftirlit og viðvaranir
„Vatnavá“ er yfirskrift fyrirlesturs sem Matthew G. Roberts og Emmanuel P. Pagneux á Veðurstofu Íslands halda í Þjóðminjasafni Íslands miðvikudaginn 3. október. Fyrirlesturinn er sá fjórði í röð hádegisfyrirlestra um vatn sem umhverfisráðuneytið, Landgræðsla ríkisins, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands og Íslenska vatnafræðinefndin efna til í tilefni af evrópsku ári vatnsins.
Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir flóðahættu á Íslandi og sagt frá rauntímavöktun flóða og viðvörunum vegna þeirra. Einnig verður sagt frá þeim markmiðum og aðferðum sem notaðar eru í vinnu Veðurstofu Íslands við hættumat flóða. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Í fyrirlestrum fyrr á árinu hefur verið fjallað um stærð og eðli vatnsauðlindarinnar á Íslandi annars vegar og í Afríku hins vegar þar sem vatn er víða af skornum skammti. Þá hefur verið fjallað um samspil vatns og jarðvegs og vatnsnotkun Íslendinga.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 og verður lokið fyrir kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.