Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjameðferð vegna ADHD og misnotkun fíkla á metylfenidati eru óskyld mál

ADHD samtökin hafa lýst áhyggjum af því að umræða um misnotkun fíkla á metýlfenidati geti skaðað meðferð og jafnvel leitt til þess að fólk hætti nauðsynlegri lyfjameðferð vegna neikvæðrar umræðu um lyfin. Samtökin og velferðarráðuneytið leggja bæði áherslu á að lyfjameðferð vegna ADHD og misnotkun fíkla á metýlfenidati séu óskyld mál og að mikilvægt sé að halda þeirri staðreynd til haga. Þetta var meðal þess sem rætt var um á sameiginlegum fundi ADHD samtakanna og velferðarráðuneytisins 5. október síðastliðinn.

Frá fundi velferðarráðuneytisins og talsmanna ADHD samtakanna 5. október 2012.

Markmið að tryggja fólki með ADHD viðeigandi meðferð

Rætt var um fyrirhugaðar breytingar á tilhögun greininga og ávísun metýlfenidatslyfja til fullorðinna á næsta ári, á fundi forsvarsmanna ADHD samtakanna, fulltrúa velferðarráðuneytisins og formanns velferðarnefndar Alþingis á fundi í ráðuneytinu 5. október sl. Tilefni fundarins var umræða um aðstæður fullorðinna með ADHD sem þurfa á metýlfenidatlyfjum að halda og hvort þeir megi vænta þess að þurfa sjálfir að greiða lyfin sín að fullu á næsta ári.

Að óbreyttu myndu niðurgreiðslur metýlfenidats fyrir fullorðna nema hátt í 340 milljónum króna á næsta ári en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er miðað við að útgjöldin lækki um 220 milljónir. Eftir stendur þriðjungur af fjárhæðinni sem nýtast mun til að greiða niður metýlfenidat hjá fullorðnum. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fækki í hópi fullorðinna sem fá ávísað metýlfenidatslyfjum með bættum greiningum, breyttum vinnureglum sjúkratrygginga, hertu eftirliti Embættis landlæknis og stofnun sérstaks teymis á Landspítala sem verður faglegur bakhjarl og er ætlað að tryggja að ávísun metýlfenidats til fullorðinna sé í samræmi við læknisfræðileg rök. Leggja þarf meiri áherslu á fjölbreyttari úrræði fyrir fullorðna með ADHD en hingað til.

Markmið ráðuneytisins er að bæta greiningu á ADHD hjá fullorðnum og auka eftirlit með ávísun þessara lyfja en tryggt verði að þeir sem þurfi sannanlega á lyfjunum að halda fái þau áfram niðurgreidd. Búið er að tryggja fjármögnun vegna stofnunar ADHD-teymis á Landspítala og hefur velferðarráðuneytið falið geðsviði spítalans að undirbúning stofnun þess. Fulltrúar ráðuneytisins og ADHD samtakanna eru sammála um að þetta sé mikilvægt skref í átt að bættri þjónustu við fullorðna með ADHD. Er von um að með aukinni þjónustu og fjölbreyttari úrræðum fyrir fullorðna einstaklinga með ADHD og stofnun ofangreinds teymis dragi úr lyfjanotkun. Mikilvægt er að velferðarráðuneytið, fagfólk og hagsmunaaðilar vinni saman að skipulagi og mótun fleiri úrræða.

Lyfjameðferð sjúklinga og misnotkun fíkla á metýlfenidati eru óskyld mál

Dæmin sanna að töluvert magn metýlfenidatlyfja gengur kaupum og sölum á svörtum markaði í fíkniefnaheiminum og samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er metýlfenidat það efni sem sprautufíklar á Íslandi nota í mestum mæli. Hvergi í heiminum er metýlfenidati ávísað í jafn miklum mæli og hér á landi og hefur Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna séð ástæðu til að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á málinu, bent á að vakta þurfi útbreiðslu þess og fylgjast með hvernig því sé ávísað til að fyrirbyggja ofnotkun og vera á verði gagnvart ólöglegri dreifingu og misnotkun.

Heilbrigðisyfirvöldum ber skylda til að sporna við misnotkun metýlfenidats og reyna með öllum ráðum að fyrirbyggja að þessi lyf komist í hendur fíkla. Á fundinum með fulltrúum ADHD samtakanna lögðu fulltrúar velferðarráðuneytisins áherslu á þetta og að þess vegna sé nauðsynlegt að efla eftirlit með lyfjaávísunum til fullorðinna, setja strangari skilyrði fyrir ávísunum og gera auknar kröfur við faglega greiningu.

Talsmenn ADHD samtakanna lýstu áhyggjum sínum af því að umræða um misnotkun fíkla á metýlfenidati geti skaðað meðferð unglinga og fullorðinna með ADHD sem jafnvel hætti nauðsynlegri lyfjameðferð vegna neikvæðrar umræðu um lyfin. Fundarmenn voru sammála um að lyfjameðferð vegna ADHD og misnotkun fíkla á metýlfenidati séu óskyld mál og að mikilvægt sé að halda þeirri staðreynd til haga. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta