Hoppa yfir valmynd
15. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framtíðarsýn í jafnréttismálum rædd á norrænum ráðherrafundi

Frá norrænum fundi jafnréttisráðherra í Ósló
Frá norrænum fundi jafnréttisráðherra í Ósló

Norrænir jafnréttisráðherrar hafa samþykkt tillögu um að samþætta aðgerðir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að berjast gegn mismunun, hvort sem hún snýr að kynjajafnrétti, réttindamálum fatlaðra, kynhneigð, trúarbrögðum eða uppruna.  

Þessi mál voru rædd á fundi norrænna jafnréttisráðherra sem haldinn var í Ósló í liðinni viku en Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Þar sagði Inga Marte Thorkildsen jafnréttisráðherra Noregs frá því að í Noregi hafi verið ákveðið að sameina allt starf sem tengist mismunun einstaklinga. Hún sagði reynsluna af þessu góða. Það sé skilvirkt að sameina alla stjórnsýslu sem tengist jafnréttisstarfinu og einfaldara að tryggja réttindi fólks með því að láta jafnréttisstarfið ná til fleiri sviða.

Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu tillögu Thorkildsen um að vinna  að samþættingu  jafnréttisstarfs á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar en voru jafnframt sammála um að á engan hátt megi veikja það starf sem miðar að því að jafna stöðu kynjanna. Endanleg afstaða til fjölbreytniáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar verður tekin þegar mat á áhrifum þessara breytinga liggur fyrir.

Á ráðherrafundinum sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra frá stöðu jafnréttismála á Íslandi og nefndi ýmis verkefni sem unnið hefur verið að til þess að jafna stöðu kvenna og karla. Hann sagði erfiðlega ganga að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og að það eigi sérstaklega við um launamuninn. Unnið sé að sérstakri aðgerðaáætlun sem kunngerð verði á næstunni en lykilatriði sé að skapa forsendur fyrir öflugu samstarfi samtaka aðila vinnumarkaðarins um launjafnrétti kynjanna. Aftur á móti hafi fyrirkomulag fæðingarorlofs hér á landi reynst áhrifaríkt og leitt til þess að báðir foreldrar komi að umönnun barna í auknum mæli. Velferðarráðherra sagðis binda vonir við lagasetningu til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja en í september 2013 taka gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri fyrirtækja. Alls falla 285 fyrirtæki undir löggjöfina en af þeim uppfylla 45% ákvæði laganna nú þegar og hefur staðan batnað töluvert í aðdraganda gildistöku laganna.

Loks sagði velferðarráðherra frá vinnu við gerð jafnlaunastaðals sem staðið hefur yfir í nokkur ár í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Gerð hans er á lokastigi og hann til umsagnar hjá Staðlaráði Íslands. Jafnlaunastaðallinn á að vera hagnýtt tæki fyrir atvinnurekendur sem nýtist þeim við endurskoðun launastefnu þannig að þeir sjálfir og starfsmenn þeirra geti treyst því að réttur kvenna og karla til launajafnréttis sé virtur.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta