Álitaefni um persónuvernd rædd á málþingi
Margs konar álitaefni um meðferð persónuupplýsinga voru til umfjöllunar á ráðstefnu um persónuvernd sem innanríkisráðuneytið og Persónuvernd stóðu að síðastliðinn föstudag í samvinnu við Mannréttindastofnun og Lagadeild Háskóla Íslands. Innlendir og erlendir sérfræðingar fluttu erindi um nokkur sérsvið er snerta persónuvernd og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti lokaorð ráðstefnunnar.
Yfirskrift ráðstefnunnar var nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga. Tekin voru fyrir nokkur sérsvið þar sem reynir á persónuvernd, svo sem margvísleg álitaefni sem Facebook samskiptavefurinn vekur upp varðandi söfnun og meðferð persónuupplýsinga notenda hans, fjallað var um meðferð persónuupplýsinga í heilbrigðiskerfinu og í rannsóknum lögreglu og hvernig þar vegast á réttindi einstaklinga og almannahagsmunir af vinnslu persónuupplýsinga.
Fundarstjóri var Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu. Eftirtaldir fluttu fyrirlestra á ráðstefnunni og er tenging á kynningarefni þeirra við hvert nafn.
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, ræddi nýlega dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um persónuvernd.
Maria Michaleidou, sérfræðingur hjá Persónuverndarskrifstofu Evrópuráðsins, en erindi hennar bar yfirskriftina: The role of the Council of Europe in protecting privacy and personal data and current challenges
Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, fjallaði um áhrif reglna Evrópusambandsins á íslenskan rétt og nýja Evrópulöggjöf um persónuvernd.
Bjørn Erik Thon, forstjóri Persónuverndar í Noregi, flutti erindi með yfirskriftinni: Social network services and privacy – How does Facebook affect personal privacy?
Björg Thorarensen, prófessonr við Lagadeild Háskóla Íslands, ræddi um vernd stjórnarskrárinnar á friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga.
Sigurður Guðmundsson, prófessor við Læknadeild HÍ og fyrrverandi landlæknir, fjallaði um meðferð persónuupplýsinga í heilbrigðiskerfinu með hliðsjón af réttindum einstaklings og almannahagsmuna.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ræddi forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti lokaorð ráðstefnunnar. Ræddi hann meðal annars samspil réttar einstaklingsins til friðhelgi einkalífs og skyldunnar til að veita tilteknar upplýsingar á hinum ýmsu sviðum, til dæmis er varðar læknismeðferð. Samfélagið væri skyldað til að lækna einstaklinginn en gæti gert þá kröfu að sjúklingur veitti ákveðnar upplýsingar í þágu samfélagsins. Þá vék hann að forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu og sagði brýnt að ræða vel og ítarlega hvernig þeim væri best háttað og færa yrði mjög skýr rök fyrir slíkum heimildum. Sagði ráðherra að best væri að leggja áherslu á forvirkar aðgerðir; að koma til dæmis í veg fyrir að ungt fólk ánetjaðist félagsskap sem stundaði skipulagða glæpastarfsemi. Í lokin hrósaði hann lögreglu fyrir mjög gott starf varðandi rannsóknir á afbrotum og sagði samstöðu ríkja um það í þjóðfélaginu að kveða niður skipulagða glæpastarfsemi og hana yrði að virkja áfram.