Hoppa yfir valmynd
22. október 2012 Innviðaráðuneytið

Sameining Álftaness og Garðabæjar tekur gildi 1. janúar 2013

Sameining sveitarfélaganna Álftaness og Garðabæjar var samþykkt í kosningum í sveitarfélögunum síðastliðinn laugardag. Í Garðabæ voru 53,11% þeirra sem tóku afstöðu samþykk sameiningunni en 46,89% voru henni andvíg. Í Sveitarfélaginu Álftanesi sögöu 87,6% já við sameiningu en 11,5% sögðu nei.

Alls verða sveitarfélög landsins 74 frá og með næstu áramótum þegar þessi sameining tekur gildi. Í Garðabæ kusu 5.417 manns af 8.506 sem eru á kjörskrá, sem gerir 63,68% kjörsókn. Kjörsókn í Álftanesi var enn meiri eða 75,3% en þar kusu alls 1.248 af 1.659 á kjörskrá.

Nýr Garðabær

Nýja sveitarfélagið mun heita Garðabær og þar verða íbúar tæplega 14 þúsund. Sveitarfélagið verður um 4.700 ha að stærð. Á næstunni verður unnið að undirbúningi sameiningarinnar hjá sveitarfélögunum. Bæjarstjórn Garðabæjar mun síðan um næstu áramót taka við stjórn nýja sveitarfélagsins og stýra því fram að sveitarstjórnarkosningum 2014. Bæjarstjórn Álftaness mun á þeim tíma gegna hlutverki ráðgefandi hverfisstjórnar.

Tillaga um sameiningu sveitarfélaganna tveggja var ein fjölmargra tillagna sem fram komu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Sveitarfélagsins Álftaness og fjárhaldsstjórn setti fram en hún var skipuð var í 2010 vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Fjárhaldsstjórnin setti fram ýmsar tillögur um aðgerðir og hefur allar götur síðan starfað náið með sveitarstjórninni og í samráði við innanríkisráðuneytið að því að hrinda þessum tillögum í framkvæmd og semja við lánardrottna. Þeirri vinnu er senn lokið og lýkur þá verkefni fjárhaldsstjórnarinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta