Styrkir úr Jafnréttissjóði og ný aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra afhendir styrki úr Jafnréttissjóði á Kvennafrídaginn, miðvikudaginn, 24. október. Styrkirnir verða afhentir við athöfn í Rímu á jarðhæð Hörpu kl. 15. Að styrkveitingu lokinni fer fram dagskrá þar sem niðurstöður þeirra rannsóknarverkefna sem fengu styrk úr sjóðnum árið 2008 verða kynnt. Jafnframt mun Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynna nýja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarnarinnar um launajafnrétti kynja.
Þekking í þágu jafnréttis
Dagskrá í tilefni af styrkveitingu Jafnréttissjóðs
miðvikudaginn 24. október kl. 15-17 í Hörpu.
1. Ávarp forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.
2. Erla Dóris Halldórsdóttir doktorsnemi í sagnfræði: Ljósfaðir, yfirsetumaður og/eða accoucheur og aðkoma þeirra að barnsfæðingum. Áhrif kyngervis á ljósmæðrastéttina árin 1760-1880.
3. Jónína Kristjánsdótir MA í alþjóðafjármálum og bankastarfsemi: Mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum fyrirtækja.
4. Anna Guðrún Edvardsdóttir doktorsnemi við menntavísindasvið HÍ: Staða og rými kvenna í dreifbýli á Íslandi.
5. Rósa G. Erlingsdóttir formaður Jafnréttissjóðs kynnir styrkveitingar Jafnréttissjóðs 2012. Afhending.
6. Velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson kynnir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um launajafnrétti kynja.
Um Jafnréttissjóð:
Í aðdraganda 30 ára afmælis Kvennafrídagsins 1975 samþykkti samþykkti ríkisstjórn Íslands árið 2005 að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á á stöðu kvenna og karla. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu unnar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða. Lögð er áhersla á að veita fé annars vegar til rannsókna á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafa á sviði jafnréttismála. Þess utan er lögð áhersla á að styrkja rannsóknir á þeim málum sem eru ofarlega á baugi í akademískri og opinberri umræðu hverju sinni. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í rannsóknarverkefnunum og áhersla lögð á að styrkja doktorsrannsóknir á sviðinu.
Sjóðurinn starfar skv. reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006. Jafnréttissjóður er vistaður í forsætisráðuneyti og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem er Rósa Guðrún Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Jóna Pálsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðherra og Ingi Valur Jóhannsson, tilnefndur af velferðamálaráðherra. Varamenn eru Stefán Stefánsson sérfræðingur í menntamálaráðuneyti, Björg Fenger, sérfræðingur í velferðarmálaráðuneyti og Hildur Jónsdóttir jafnréttisfulltrúi í forsætisráðuneyti.
Í ár er veitt úr sjóðnum í fjórða skipti en áður voru veittir styrkir árin 2006, 2007 og 2008. Sjóðurinn starfaði ekki á árunum frá 2009-2011. Að þessu sinni bárust 13 umsóknir og var alls sótt um 39,3 milljónir króna. Að þessu sinni fá fimm verkefni styrk samtals að upphæð 9,0 milljónum króna.
Allar nánari upplýsingar veita: Rósa Guðrún Erlingsdóttir, formaður Jafnréttissjóðs, í gsm. 6150698 eða mailto:[email protected]. og Hildur Jónsdóttir í gsm. 863 5383 eða [email protected]