Breið samstaða um aðgerðir gegn kynbundnum launamun
Stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun sem enn er viðvarandi vandi á innlendum vinnumarkaði. Við sama tækifæri kynnti Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynja sem ríkisstjórnin samþykkti 28. september síðastliðinn.
Að yfirlýsingunni standa velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Komið verður á fót aðgerðahópi þeirra sem að henni standa og er markmið samstarfsins að eyða kynbundnum launamun. Verkefni hópsins verða meðal annarra að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals og annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Efnt er til samstarfsins til tveggja ára í tilraunaskyni með möguleika á framlengingu standi vilji til áframhaldandi samstarfs.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynja
Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem meðal annars var falið að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar. Var þetta gert í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum samþykkt var á liðnu ári. Aðgerðaáætlunin var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 28. september síðastliðinn og kynnti Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hana á málþingi í Hörpu í dag.
Aðgerðaáætlunin felur í sér ýmis verkefni sem öllum er ætlað að stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og snúa þær jafnt að ríkinu sem atvinnurekanda og samfélaginu í heild.
Aðgerðaáætlunin felur m.a. í sér tillögur um:
- Aðgerðahóp sem verður samstarfs- og samráðsvettvangur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynja.
- Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals.
- Að efla rannsóknir á fæðingarorlofi, áhrifum þess á verkaskiptingu á heimilum, mismun á nýtingu kynjanna á þessum rétti, stöðu foreldra á vinnumarkaði eftir að töku fæðingarorlofs lýkur o.fl.
- Að koma á fót upplýsingaveitu um launajafnrétti þar sem upplýsingar og gögn um kynbundinn launamun verða aðgengilegar á einum stað.
Samvæmt aðgerðaáætluninni skulu stjórnvöld sem vinnuveitandi vinna að eftirtöldum verkefnum:
- Bæta skráningu upplýsinga í mannauðskerfi ríkisins svo unnt verði að gera heildstæðari og áreiðanlegri greiningar á launum ríkisstarfsmanna.
- Gera árlegar jafnlaunaúttektir hjá öllum ríkisstofnunum, þar á meðal ráðuneytum, þannig að fyrir liggi mat á launamun kynjanna innan stofnana og á milli stofnana.
- Útbúa leiðbeiningar fyrir forstöðumenn ríkisstofnana um hvernig beri að bregðast við ef launagreining leiðir í ljós kynbundinn launamun.
- Efna til samvinnu milli aðila vinnumarkaðarins um reglulegar rannsóknir á launamun kynja á almennum vinnumarkaði og þeim opinbera.
- Vinna að því í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að skilgreina hvaða breytur teljast málefnalegar ástæður varðandi launamun kynjanna.
- Skoða formgerð og uppbyggingu kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði til að meta að hve miklu leyti megi rekja kynbundinn launamun til kerfislægra þátta.
- Stuðla að rannsóknum á starfsmatskerfi sveitarfélaganna, mælikvörðum og vinnuaðferðum til að meta hvort fyrir hendi sé vanmat á hefðbundnum kvennastörfum miðað við jafnverðmæt karlastörf.