Kynjajafnrétti á Íslandi í alþjóðlegu ljósi
Ísland er í efsta sæti árlegrar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna, sem birt var í dag og tekur til 135 ríkja í heiminum. Hér á landi er 24. október tileinkaður baráttunni fyrir jafnrétti kynja og mun velferðarráðherra kynna nýja aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynja við athöfn sem fram fer í Hörpu frá kl. 15.00-17.00 í dag.
Þetta er í sjöunda sinn sem Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) gefur út skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum og fjórða árið í röð sem Ísland skipar sér í efsta sæti þeirrar úttektar. Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum, þ.e. út frá aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.
Líkt og áður raða Norðurlandaþjóðirnar sér í efstu sætin. Á eftir Íslandi er Finnland í öðru sæti, Noregur í þriðja og Svíþjóð í því fjórða og má lesa út úr skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins að tæp 20% vanti á til að jafna stöðu kynjanna að fullu meðal þessara þjóða. Í fimmta sæti er Írland, Nýja Sjáland í sjötta sæti og Danmörk í því sjöunda.
Velferðarráðherra kynnir aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja
Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem meðal annars var falið að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar í því skyni, auk þess að ljúka við gerð jafnlaunastaðals. Var þetta gert í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna er nú tilbúin og var hún samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 28. september síðastliðinn. Í áætluninni eru lögð til sautján verkefni sem öllum er ætlað að stuðla að launajafnrétti kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og snúa jafnt að ríkinu sem atvinnurekanda og samfélaginu í heild.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mun kynna aðgerðaáætlunina við athöfn sem haldin verður í Hörpu í dag milli kl. 15.00 – 17.00 þegar afhentir verða styrkir úr Jafnréttissjóði.