Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Gildistöku barnalaga frestað til 1. júlí á næsta ári

Breytingarnar á barnalögum koma til framkvæmda á næsta ári og var í dag haldin ráðstefna á vegum innanríkisráðuneytisins Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni og Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd um þær breytingar og undirbúning að gildistöku og framkvæmd laganna. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti ráðstefnuna með ávarpi og síðan voru fluttir fyrirlestrar og málið rætt í pallborði.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu um breytingar á barnalögum í dag.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu um breytingar á barnalögum í dag.

Meginefni ráðstefnunnar var um breytingar á barnalögum sem samþykktar voru á Alþingi fyrr á þessu ári og koma til framkvæmda á næsta ári. Innlendir og erlendir fyrirlesarar fjölluðu um ráðgjöf og sáttameðferð, umgengni og forsjárdeilur, þar á meðal heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá.

Innanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu um breytingar á barnalögumÍ upphafi ávarps síns minntist innanríkisráðherra á baráttudag eineltis í dag og hvatti fólk til að gefa gaum að því málefni.

Í ávarpi sínu gat innanríkisráðherra um nokkrar breytingar á lögunum og sagði meðal annars að tryggð hefði verið 30 milljóna króna fjárveiting til að innleiða lögin. Sú fjárhæð dygði þó ekki til. Afar brýnt væri að vandað verði til innleiðingar laganna ekki síst ákvæðanna um ráðgjöf og sáttameðferð og annarra ákvæða um hlutverk sérfræðinga svo ákvæðin geti þjónað tilgangi sínum og orðið sú réttarbót sem að væri stefnt. ,,Til þess að tryggja að svo verði hefur verið ákveðið að leggja til að gildistöku laganna verði frestað um sinn eða til 1. júlí 2013. Þetta er ekki óskastaða, en þykir óhjákvæmilegt í ljósi aðstæðna og er von mín að með þessu móti verði innleiðingin vandaðri, sem aftur leiðir til betri framkvæmdar,” sagði ráðherra.

Fjölmenn ráðstefna um breytingar á barnalögum var haldin í dag.

Þá gat ráðherra um nýjan upphafskafla barnalaga þar sem lögfest eru grundvallarsjónarmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins; meðal annars reglan um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Það felur í sér að aðrir hagsmunir, hvort sem það eru hagsmunir foreldra eða annarra verða að víkja, fari þeir ekki saman við hagsmuni barnsins. Af þessu þarf að taka mið við alla stefnumótun og einnig við meðferð sérhvers máls. 

Önnur ný ákvæði laganna fjalla um ráðgjöf annars vegar og sáttameðferð hins vegar. Í lögunum er mælt fyrir um að sýslumenn geti boðið foreldrum, sem deila ráðgjöf sérfræðings með það að markmiði að leiðbeina þeim og að ná sátt, með tilliti til þess sem barni er fyrir bestu. Gengið er út frá því að sérfræðingarnir sem veita ráðgjöf á embættum sýslumanna geti unnið náið með sýslumönnum sem leiðir af sér að embættin verða þverfagleg og er það nýmæli. Með þessu móti er meðal annars komið til móts við óskir foreldra um aukna ráðgjöf.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta