Jón Geir Pétursson skipaður skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í dag skipað Jón Geir Pétursson, doktor í umhverfis- og auðlindastjórnun, skrifstofustjóra á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Skipun Jóns Geirs er í samræmi við reglur nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Jón Geir var annar tveggja umsækjenda sem hæfnisnefnd taldi hæfasta til að sinna stöðunni úr hópi 25 umsækjenda.
Jón Geir Pétursson er með grunnám í líffræði frá Háskóla Íslands, meistarpróf í skógfræði frá Sænska landbúnaðarháskólanum og doktorspróf í umhverfis- og þróunarfræði með sérhæfingu í umhverfis- og auðlindastjórnun.
Jón Geir hefur starfað sem sérfræðingur á skrifstofu stefnumótunar og alþjóðamála í umhverfisráðuneytinu frá 2008 og á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneyti frá 1. september sl. Fyrir þann tíma og meðfram starfi sínu í ráðuneytinu hefur hann sinnt háskólakennslu auk þess sem hann starfaði sem sérfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands.
Þá hefur Jón Geir gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda á innlendum og erlendum vettvangi sem tengjast verkefnum skrifstofunnar.
Jón Geir er kvæntur Kristínu Lóu Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Hæfnisnefndina skipuðu Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, formaður, Anna Dóra Sæþórsdóttir, varaforseti líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands og Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytisins.