Tengsl heilsu og loftslags kortlögð
Hættur sem steðja að heilsu manna aukast eftir því sem loftslagsbreytingar verða meiri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ritinu „The Atlas of Health and Climate“ sem Alþjóða veðurmálastofnunin (WMO) og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hafa gefið út. Þar eru áhrif loftslagsbreytinga á heilsu fólks víðs vegar um heim kortlögð og sjónum beint að brýnustu viðfangsefnunum á þessu sviði.
Þurrkar, flóð og hvirfilbylir hafa á hverju ári áhrif á milljónir manna. Óstöðugt og öfgakennt veðurfar getur einnig komið af stað sjúkdómafaröldrum á borð við niðurgang, malaríu, beinbrunasótt og heilahimnabólgu en slíkir sjúkdómar geta valdið dauða og þjáningum milljóna manna. Í ritinu er að finna góð dæmi um hvernig nota megi veður- og loftslagsupplýsingar til að vernda heilsu almennings.
Fjöldi korta, tafla og grafa sem er að finna í Atlasinum skýra vel hvernig tengslum milli loftslags og heilsu er háttað:
- Á sumum stöðum sveiflast tíðni smitsjúkdóma um meira en 100 stig milli árstíða og verulega milli ára, eftir veðri og loftslagi. Styrkari veður- og loftslagsþjónusta á viðkvæmum svæðum gæti auðveldað spár um hvenær og hvar sjúkdómar eru líklegir til að kvikna, um styrk þeirra og hversu lengi þeir verða að ganga yfir.
- Rannsóknir sýna hvernig samvinna milli veðurstofa, neyðarþjónustu og heilbrigðiskerfis bjargar mannslífum. Sem dæmi þá fækkaði dauðsföllum af völdum hvirfilbylja af svipuðum styrkleika í Bangladesh úr 500 þúsund árið 1970 í 140 þúsund árið 1991 og niður í 3 þúsund árið 2007. Þetta er þakkað betra viðvörunarkerfi og því að menn eru betur undirbúnir undir hvirfilbylina en áður.
- Miklar hitabylgjur sem í dag er ekki búist við nema á 20 ára fresti gætu orðið mun algengari um miðja öldina, eða gengið yfir annað til fimmta hvert ár. Á sama tíma mun fjölga verulega í þeim hópi sem er hvað viðkvæmastur fyrir hita, þ.e. eldra fólki sem býr í borgum. Búist er við að hópurinn muni fjórfaldast á heimsvísu á tímabilinu og fara úr 380 milljónum árið 2010 í 1,4 milljarða árið 2050. Mælt er með því að auka samstarf milli heilbrigðis- og loftslagsþjónustu svo hægt sé að grípa til aðgerða til verndar fólki vegna öfga í veðri.
- Ef heimili skiptu yfir í endurnýjanlega orkugjafa drægi ekki einungis úr loftslagsbreytingum heldur myndi það bjarga lífum um 680 þúsund barna árlega vegna bættra loftgæða. Í Atlasinum er sýnt hvernig veður- og heilbrigðistþjónusta getur haft samstarf um að fylgjast með loftgæðum og áhrifum loftmengunar á heilsu fólks.
- Þá sýnir Atlasinn hvernig aðrir þættir, s.s. fátækt, hnignun lífríkis og náttúru, skortur á vatni og léleg salernisaðstaða, hafa áhrif á sambandið milli heilsu og loftslags.