Ísland stýrir hliðarviðburði um jafnréttismál og loftslagsbreytingar
Fulltrúar Íslands stýrðu sérstökum hliðarviðburði til kynningar á þróunarverkefni á sviði jafnréttismála og loftslagsbreytinga á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Doha nú í kvöld. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Noreg, Danmörku og Úganda, en um er að ræða umfangsmikið verkefni í samvinnu landanna fjögurra í Úganda.
Verkefnið hefur verið styrkt af Þróunarsamvinnustofnun Íslands, ásamt Noregi og Danmörku, og unnið í samstarfi við stjórnvöld í Úganda. Alþjóðlegur jafnréttisskóli Háskóla Íslands - GEST – vann þann hluta verkefnisins sem snýr að námsefnisgerð og þjálfun starfsfólks héraðsstjórna Úganda.
Hliðarviðburðurinn var haldinn sameiginlega af stjórnvöldum Úganda, Íslands, Noregs og Danmerkur, í samstarfi við ÞSSÍ og GEST. Ráðherra umhverfismála í Úganda, Flavia Munaaba Nabugeere flutti ávarp þar sem hún fagnaði þeim árangri sem náðst hefur. Áhrifa loftslagsbreytinga sé farið að gæta í landinu, en þau hafi mjög ólík áhrif á kynin. Þá hélt Andrés Ingi Jónsson, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarp þar sem hann benti á að Ísland hefði lengi talað fyrir kynjasjónarmiðum í loftslagsviðræðunum, en verkefnið í Úganda væri gott dæmi um hvernig hægt væri að fylgja þeim áherslum eftir með raunhæfum verkefnum. María Nandago, sérfræðingur ÞSSÍ í Úganda, og Lawrence Aribo frá úgandíska vatns- og umhverfisráðuneytinu kynntu einstaka þætti verkefnisins og fulltrúar Noregs og Danmerkur lýstu ánægju sinni með verkefnið.
Viðburðurinn var vel sóttur og urðu þar líflegar umræður um ýmsa þætti verkefnisins.