Hoppa yfir valmynd
5. desember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland stýrir hliðarviðburði um jafnréttismál og loftslagsbreytingar

Frá umræðunum í kvöld.
Frá umræðunum í kvöld.

Fulltrúar Íslands stýrðu sérstökum hliðarviðburði til kynningar á þróunarverkefni á sviði jafnréttismála og loftslagsbreytinga á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Doha nú í kvöld. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Noreg, Danmörku og Úganda, en um er að ræða umfangsmikið verkefni í samvinnu landanna fjögurra í Úganda.

Verkefnið hefur verið styrkt af Þróunarsamvinnustofnun Íslands, ásamt Noregi og Danmörku, og unnið í samstarfi við stjórnvöld í Úganda. Alþjóðlegur jafnréttisskóli Háskóla Íslands - GEST – vann þann hluta verkefnisins sem snýr að námsefnisgerð og þjálfun starfsfólks héraðsstjórna Úganda.

Hliðarviðburðurinn var haldinn sameiginlega af stjórnvöldum Úganda, Íslands, Noregs og Danmerkur, í samstarfi við ÞSSÍ og GEST. Ráðherra umhverfismála í Úganda, Flavia Munaaba Nabugeere flutti ávarp þar sem hún fagnaði þeim árangri sem náðst hefur. Áhrifa loftslagsbreytinga sé farið að gæta í landinu, en þau hafi mjög ólík áhrif á kynin. Þá hélt Andrés Ingi Jónsson, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarp þar sem hann benti á að Ísland hefði lengi talað fyrir kynjasjónarmiðum í loftslagsviðræðunum, en verkefnið í Úganda væri gott dæmi um hvernig hægt væri að fylgja þeim áherslum eftir með raunhæfum verkefnum. María Nandago, sérfræðingur ÞSSÍ í Úganda, og Lawrence Aribo frá úgandíska vatns- og umhverfisráðuneytinu kynntu einstaka þætti verkefnisins og fulltrúar Noregs og Danmerkur lýstu ánægju sinni með verkefnið.

Viðburðurinn var vel sóttur og urðu þar líflegar umræður um ýmsa þætti verkefnisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta