Forsjá barna af erlendum uppruna
Ný rannsókn á skipan forsjármála barna af erlendum uppruna hér á landi leiðir í ljós að hún er frábrugðin þeirri tilhögun sem algengust er þegar börn íslenskra foreldra eiga í hlut. Velferðarráðuneytið styrkti gerð rannsóknarinnar og voru niðurstöður hennar til umræðu á fundi í Iðnó í gær. Húsfyllir var á fundinum sem Fjölmenningarsetur og Mannréttindaskrifstofa Íslands boðuðu til í samvinnu við Innflytjendaráð og velferðarráðuneytið.
Alls náði rannsóknin til forsjárfyrirkomulags 11.210 barna sem eiga foreldra sem skildu eða slitu sambúð á árunum 2001 til 2010. Niðurstöðurnar sýna ótvírætt samband á milli uppruna barns og fyrirkomulags forsjár þess þegar foreldrarnir búa ekki saman. Uppruni foreldranna virðist ráða mestu um hvort forsjá er sameiginleg og ef ekki hvort móðirin hefur forsjána eða faðirinn.
Í skýrslu með rannsóknarniðurstöðunum er fjallað um ýmsa þætti sem geta verið orsökin fyrir þeim mun sem er á skipan forsjármála eftir uppruna barna og foreldra þeirra. Vonir standa til að niðurstöður rannsóknarinnar nýtist við stefnumótun innan málaflokksins með áherslu á að upplýsingamiðlun og þjónusta við foreldra af erlendum uppruna sem skilja eða slíta sambúð taki mið af þörfum þeirra en þó fyrst og fremst barnanna sem eiga í hlut.