Jarðhitaverkefni í Afríku mun hafa jákvæð loftslagáhrif
Ísland gegnir lykilhlutverki í stóru jarðhitaverkefni í Austur-Afríku, sem nær til 13 ríkja og getur gefið milljónum manna aðgang að endurnýjanlegri orku í framtíðinni. Þetta kom fram í ræðu Íslands á 18. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings S.þ. í Doha í Katar í dag.
Verkefnið er styrkt af íslenskum stjórnvöldum og Norræna þróunarsjóðnum, sem láta hvort um sig 10 milljónir evra til verkefnisins á fimm árum, en þetta er stærsta þróunarverkefni sem Íslendingar hafa tekið þátt í. Verkefnið tengist átaki Alþjóðabankans að stórefla jarðhitanýtingu í Afríku og á heimsvísu. Aukin jarðhitanýting í þróunarríkjum er jákvæð frá loftslagssjónarmiðum og eflir einnig efnahag ríkja og getu til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Þá hefur rafvæðing fátækra héraða jákvæð áhrif á heilbrigði íbúanna. Áætlað er að nærri 3 milljarðar manns búi í heimilum þar sem er eldað yfir opnum eldi og að árlega megi rekja nærri 2 milljón ótímabær dauðsföll til mengunar af völdum þess.
Ísland tilkynnti áform sín um að taka á sig nýjar skuldbindingar á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar í ræðunni, en eitt helsta mál fundarins í Doha er að ganga frá gildistöku nýs skuldbindingartímabils í ársbyrjun 2013.
Ísland gerði að umtalsefni nýjar upplýsingar um hlýnun á Norðurslóðum og afleiðingar hennar, en hafísþekjan á Norður-Íshafinu hefur aldrei mælst minni en nú í haust. Nýjar niðurstöður rannsóknar á jöklum við Norður-Atlantshaf sýna líka að nær allir jöklar þar eru að hopa, þ.á m. á Íslandi. Súrnun hafsins vegna upptöku koldíoxíðs úr andrúmsloftinu væri vaxandi áhyggjuefni og framtíðarógn við kóralla og lífríki hafsins í heild.
Ísland fagnaði væntanlegri ályktun Doha-fundarins um að efla jafnréttissjónarmið og auka hlut kvenna í starfi Loftslagssamningsins, en Ísland stóð að þeirri ályktun ásamt fleiri ríkjum. Ísland gerði stutta grein fyrir verkefni sem íslensk stjórnvöld o.fl. styrkja í Úganda og miðar að því að efla hlut kvenna þar í landi við aðlögun að loftslagsbreytingum.