Formlegt samstarf um starfsnám í heimilislækningum
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali háskólasjúkrahús hafa gert með sér formlegt samkomulag til tveggja ára um fyrirkomulag sérmenntunar fyrir heimilislækna. Samkomulagið tryggir öllum sem nú eru í sérnámi á þessu sviði námsstöður til ársloka 2014.
Sérnámið fer fram að hluta til innan heilsugæslunnar og að hluta til á deildum Landspítala samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi sem samþykkt er af báðum samningsaðilum. Með þessu móti verður starfsnámið markvissara þar sem nám hvers og eins er skipulagt frá upphafi til loka starfsnámstímans.
Lausum stöðum sérfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur að hluta til verið breytt í sérnámsstöður í heimilislækningum og verða formlegar stöður sérnámslækna nú 36 í stað 12 áður.
Þegar verður hafist handa við að skipuleggja áframhaldandi sérnám heimilislækna og er stefnt að því að nýr samningur verði undirritaður fyrir lok næsta árs.