Úthlutun aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2012
Innanríkisráðherra hefur gefið út reglur um ráðstöfun 350 milljóna króna aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 2012. Reglurnar eru settar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aukaframlaginu er ætlað að koma til móts við þau sveitarfélög sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum á árinu. Við útreikning framlagsins er meðal annars byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2011.
Einungis kemur til úthlutunar framlags ef heimild sveitarfélags til álagningar útsvars fyrir tekjuárið 2012 er fullnýtt af sveitarstjórn.
Um svipaðar reglur er að ræða í ár og giltu við úthlutun aukaframlagsins á árinu 2011. Á grundvelli 6. gr. reglnanna er aukaframlagið greitt með einni greiðslu sem fram fer í dag, 20. desember 2012.
Úthlutun framlagsins er sem hér segir:
Framlag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika Sveitarfélagsins Álftaness (2. gr.)
Varið skal 175 m. kr. til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum Sveitarfélagsins Álftaness í samræmi við tillögur fjárhaldsstjórnar um heildarlausn á fjárhagsvanda þess.
Framlag vegna íþyngjandi skulda (3. gr.)
Varið skal 115 m.kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað skuldahlutfall er hærra en 150%. Við útreikning framlags kemur til skerðingar vegna skuldahlutfalls á bilinu 150% - 250% og þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er hærra en 3%.
Framlag vegna íbúafækkunar (4. gr.)
Varið skal 60 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúaþróun hefur verið lakari en hjá Reykjavíkurborg árin 2007 – 2011. Við útreikning framlags er byggt á upplýsingum úr Þjóðskrá um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2006 og 1. desember 2011. Skerðing framlagsins er hlutfallsleg miðað við nettóskuldir á bilinu 50% - 100%. Framlögin eru jafnframt skert hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar meðaltekjur á íbúa á árinu 2012 miðað við sambærileg sveitarfélög.
- Reglur um úthlutun aukaframlags 2012 (pdf skjal)
- Úthlutun aukaframlags 2012 (pdf skjal)