Stefnumörkun um skógrækt afhent ráðherra
Starfshópur, undir formennsku Jóns Loftssonar skógræktarstjóra, sem unnið hefur að gerð stefnumótunar í skógrækt hefur skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Nefndin, sem var skipuð árið 2006, hefur unnið greinargerð með stefnumarkandi tillögum um áherslur í skógræktarstarfinu sem hún kynnti ráðherra í gær.
Í nefndinni sátu fulltrúar Landshlutaverkefna í skógrækt, Landssamtaka skógareigenda og Skógræktarfélags Íslands. Jafnframt voru drög að greinargerð nefndarinnar send í almenna kynningu árið 2010 og bárust þá fjölmargar ábendingar og athugasemdir sem voru til leiðsagnar við endanlega gerð greinargerðarinnar.
Í greinargerðinni er fjallað um ýmsa þætti skógræktar og hvernig skógræktaraðilar hyggjast móta og skipuleggja starf sitt. Þar á meðal eru markmið um uppbyggingu skógarauðlindar, endurheimtar náttúruskóga, hlutverki við bætta lýðheilsu og útivist og loftslagsmálum svo nokkur mikilvæg atriði séu nefnd. Jafnframt eru þar tillögur um gerð heildstæðrar landsáætlunar í skógrækt, sem framtíðar stjórntækis til að vinna að framgangi stefnumörkunarinnar.
Stefnumörkun um skóga og skógrækt á Íslandi er að finna á ýmsum stöðum; í lögum og reglugerðum, áætlunum og alþjóðasamningum, en hana er ekki hægt að finna með heildstæðum hætti á aðgengilegu formi. Með greinargerðinni er ætlunin að bæta úr með þvi að draga saman og leggja fram heildarstefnu í skógræktarmálum.
Skógar á Íslandi - Stefna á 21. öld