Tillögur um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu
Starfshópur um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra tillögum sínum í gær. Tillögurnar eru sjö talsins og er í þeim fjallað um ýmis atriði til að vinna að markmiðum um sjálfbæra búfjárbeit svo og skipulag hennar og annarrar landnýtingar.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skipaði starfshópinn í samráði við Steingrím J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í september sl. Hópnum var annars vegar ætlað að fara yfir stjórn búfjárbeitar í landinu með tilliti til gróðurverndar og sjálfbærrar landnýtingar. Hins vegar skyldi starfshópurinn vinna tillögur til ráðherranna með það að markmiði að efla stjórn búfjárbeitar með tilliti til gróður- og jarðvegsverndar, ágangs búfjár og sjálfbærrar landnýtingar.
Sem fyrr segir er í skýrslu hópsins gerðar sjö tillögur í samræmi við ofangreint. Í fyrsta lagi er lagt til að komið verði á símatskerfi til vöktunar á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda. Í öðru lagi er lagt til að gæðastýring í sauðfjárrækt verði efld sem stjórntæki við sjálfbæra landnýtingu. Í þriðja lagi er lagt til að sjálfbærniviðmið fyrir búfjárbeit verði skoðuð, í fjórða lagi að skipulag og framkvæmdir við girðingar á vegum hins opinbera verði samræmd, í fimmta lagi að unnið verði svæðisbundið að beitarstjórnun og í sjötta lagi að löggjöf er varðar beitarstýringu verði samræmd og uppfærð eftir þörfum. Loks er lagt til að unnar verði tillögur að rammaáætlun um skipulag landnotkunar og sjálfbæra landnýtingu.
Í starfshópnum sátu Jón Geir Pétursson formaður og fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Bjarni E. Guðleifsson, fulltrúi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Oddný Steina Valsdóttir fulltrúi Landssamtaka sauðfjárbænda.
Tillögur starfshóps um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu