Samfélag axli ábyrgð og skyldur vegna heimilisofbeldis og ofbeldis gegn konum
Sendinefnd frá Íslandi sótti ráðstefnu á vegum finnska þingsins og utanríkiráðuneytisins og Evrópuráðsins í Helsinki sem haldin var í dag. Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra fór fyrir sendinefndinni sem samanstóð af Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, Margréti Steinarsdóttur, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, og Maríu Rún Bjarnadóttur, sérfræðingi innanríkisráðuneytisins í mannréttindamálum. Þuríður Backman alþingismaður sótti einnig fundinn fyrir hönd þingmannanefndar Evrópuráðsins.
Á ráðstefnunni var fjallað um nýlegan samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaðan Istanbúl samning, en samningurinn var undirritaður í mars 2011, meðal annars af fulltrúum Íslands. Hins vegar hefur Tyrkland eitt ríkja fullgilt samninginn, sem tekur fyrst gildi þegar tíu ríki hafa fullgilt hann. Fulltrúar Evrópuráðsins, þingmannanefndar Evrópuráðsins, finnskra stjórnvalda, UN Women auk fræðimanna, sérfræðinga og stjórnmálamanna frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Þýskalandi, Litháen, Lettlandi, Póllandi, Rússlandi og Svíþjóð ræddu efni samningsins og mikilvægi hans fyrir ríki sem vilja koma í veg fyrir ofbeldi á konum.
Halla Gunnardóttir fjallaði í erindi sínu á ráðstefnunni um mikilvægi þess að heimilisofbeldi sé ekki lengur álitið fjölskyldumálefni einstaklinga, heldur vandi samfélags sem að feli í sér skyldur og ábyrgð stjórnvalda sem mikilu skipti að axla. Í erindinu lagði hún áherslu á mikilvægi opinnar umræðu um kynferðis- og heimilisofbeldi og minnti á þrotlausa og hugrakka baráttu kvennahreyfingarinnar í þeim efnum. Hún fjallaði um samráðsferli um meðferð kynferðisbrotamála í réttarkerfinu sem innanríkisráðuneytið hefur leitt frá haustinu 2010. Þar á meðal eru lagabreytingar sem ráðist hefur verið í til þess að styrkja réttarumhverfi vegna kynferðisbrota gegn börnum vegna fullgildingar Lanzarote samningsins og viðbragða vegna heimilisofbeldis með lögfestingu austurrísku leiðarinnar. Ráðuneytið hefur einnig staðið fyrir ráðstefnum um meðferð kynferðisbrota bæði gegn börnum og konum í réttarkerfinu og um klám, en eins og kom fram í máli Höllu, hafa komið fram ítrekaðar athugasemdir um tengsl kláms og kynferðisbrota frá þeim aðilum sem vinna við rannsókn og meðferð slíkra mála.
Innanríkisráðuneytið fjármagnaði sl. haust yfirgripsmikla úttekt á efni Istanbúl samningsins og aðlögun íslenskra laga og reglna svo að fullgilda mætti samninginn. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands annaðist úttektina sem er aðgengileg hér. Ráðuneytið vinnur nú að úrvinnslu niðurstaðna úttektarinnar með fullgildingu samningsins að leiðarljósi og óskar eftir athugasemdum og ábendingum á grundvelli hennar í tilefni þessa fyrir 10. febrúar næstkomandi.