Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðherra fundar með hagsmunaaðilum

Frá fundi með hagsmunaaðilum í gær.
Frá fundi með hagsmunaaðilum í gær.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir efndi í gær til kynnisfundar með helstu hagsmunaaðilum sem koma að málaflokkum ráðuneytisins. Á fundinum var farið yfir starfsskipulag ráðuneytisins og helstu málaflokkar þess kynntir. Auk þess gafst fundargestum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra um þau atriði sem helst brenna á þeim á verkefnasviði ráðuneytisins.

Talsverð breyting varð á starfssviði ráðuneytisins við það að auðlindamál færðust til þess 1. september síðastliðinn. Má þar nefna að rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra eru nú meðal verkefna umhverfis- og auðlindaráðuneytis og er ráðuneytinu í því sambandi falið að setja viðmið um sjálfbæra nýtingu allra auðlinda. Áætlun um vernd og nýtingu orkusvæða (rammaáætlun) er nú á forræði ráðuneytisins auk þess sem því er falin forysta um skipulagsmál hafsins og strandsvæða.

Þessi nýju verkefni kalla á aukin samskipti og samráð umhverfis- og auðlindaráðuneytis við breiðari hóp hagsmunaaðila en áður. Var markmiðið með fundinum í gær að koma á tengslum við tengiliði helstu hagsmunasamtaka sem að málaflokkum ráðuneytisins koma og kynna fyrir þeim starfsemi ráðuneytisins.

Á fundinum ávarpaði umhverfis- og auðlindaráðherra fundargesti og Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri kynnti nýtt starfsskipulag ráðuneytisins og hin nýju verkefni þess. Þá fóru skrifstofustjórar yfir helstu málaflokka og verkefni hverrar skrifstofu fyrir sig. Í kjölfarið sköpuðust líflegar umræður fundarmanna um málefni ráðuneytisins þar sem hagsmunaaðilar komu á framfæri sjónarmiðum sínum við umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta