Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á lögum með „bandormi“ sem Alþingi hefur samþykkt

Alþingi
Alþingi.

Alþingi samþykkti í desember síðastliðinn lög nr. 157/2012 - svokallaðan bandorm - um breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands. Nokkrar breytinganna sem lögin kveða á um varða umhverfis- og auðlindaráðuneyti og eru annars vegar til að styrkja hina nýju stjórnsýslu ráðuneytisins á sviði ráðgjafar um nýtingu auðlinda og hins vegar til að einfalda stjórnsýslu ákveðinna þátta frá því sem verið hefur.

Meðal annars er kveðið á um að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli tilnefna tvo fulltrúa í ráðgjafarnefnd Hafrannsóknastofnunar, en nefndin kemur í stað þess sem áður var stjórn stofnunarinnar. Með þessu er aðkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytis að hafrannsóknum og ráðgjöf á sviði sjávarauðlindanýtingar tryggð.

Þá kveða lögin á um að ráðherra skuli skipa samstarfsnefnd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskistofna og aðrar lifandi auðlindir hafsins.

Sömuleiðis skal ráðherra skv. lögunum skipa ráðgjafarnefnd við Veiðimálastofnun, en með breytingum sem gerðar voru á Stjórnarráðinu 1. september síðastliðinn fluttist stofnunin til umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Einnig kveða lögin á um að umsagnir vegna laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og laga um leit og rannsóknir og vinnslu kolefnis skuli flytjast til viðkomandi stofnana ráðuneytisins frá ráðuneytinu til einföldunar stjórnsýslu.

Loks flytjast dýraverndunarmál frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar með breytingum á lögunum og er málaflokkurinn því ekki lengur á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þar með er öll framkvæmd dýraverndarmála undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta