Áfram fylgst með inflúensufaraldri, stöðu og horfum
Velferðarráðuneytið fylgist grannt með þróun inflúensufaraldursins, stöðu og horfum, þótt óvissustigi vegna farsótta á Landspítala hafi verið aflétt. Faraldurinn hefur enn ekki náð hámarki og því fer fram dagleg upplýsingagjöf milli ráðuneytisins, sóttvarnalæknis og Landspítala auk þess sem ráðuneytið fylgist með þróuninni á öðrum heilbrigðisstofnunum um land allt.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær kynnti Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra stöðu mála vegna inflúensufaraldursins og annarra veirusýkinga. Síðastliðinn föstudag var lýst yfir óvissustigi á Landspítala samkvæmt viðbragðsáætlun sjúkrahússins þar sem álag á sjúkrahúsinu hafði aukist mikið vegna inflúensu, Nóró og RS vírus faraldra og deildir voru orðnar yfirfullar.
Í gær, 22. janúar, ákvað viðbragðsstjórn Landspítala að fella úr gildi viðbragðsáætlun sem virkjuð var síðastliðinn föstudag og aflétta óvissustigi vegna farsótta. Í frétt á vef sjúkrahússins segir að nokkuð hafi dregið úr einangrun vegna inflúensu, þótt heildarfjöldi sjúklinga í einangrun sé svipaður því sem verið hefur undanfarna daga. Spítalinn beinir áfram þeim tilmælum til almennings að takmarka heimsóknir til sjúklinga sem þar liggja. Þá er gert ráð fyrir að viðbragðsstjórn Landspítala komi saman í hádeginu næsta föstudag til að meta stöðuna og fyrr ef þörf krefur.
Ekki hefur borið mikið á inflúensu hjá heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins samkvæmt eftirgrennslan velferðarráðuneytisins.
Aldrei of seint að fá bólusetningu
Sóttvarnarlæknir segir að þeir sem hafi ekki þegar látið bólusetja sig geti enn gripið til þess ráðs til að varna veikindum. Það sé aldrei of seint og reikna megi með því að flensan eigi eftir að ganga næstu vikur. Sérstaklega mælir hann með því að fólk sem er 60 ára og eldra og fólk með undirliggjandi sjúkdóma láti bólusetja sig hafi það ekki þegar gert það.