Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Staða íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu

Kjörtímabil íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu rennur út þann 31. október 2013. Evrópuráðið hefur því farið þess á leit að tilnefnd verði af Íslands hálfu þrjú dómaraefni en samkvæmt 22. gr. mannréttindasáttmálans sbr. lög nr. 62/1994 eru dómarar við Mannréttindadómstólinn kjörnir af þingi Evrópuráðsins af lista með þremur mönnum sem samningsaðili tilnefnir. Miðað er við að kosið verði á milli þeirra á þingi Evrópuráðsins í júní 2013 að undangengnum viðtölum í undirnefnd þingsins sem fjallar um val dómara.

Mannréttindadómstóll Evrópu.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja.

Um hæfisskilyrði dómara við mannréttindadómstólinn er fjallað í 21. gr. mannréttindasáttmálans og kemur þar fram að dómarar skuli vera menn grandvarir og verði þeir annaðhvort að fullnægja kröfum um hæfi til að gegna æðri dómarastörfum eða vera lögvísir svo orð fari af. Þeir skuli skipa sæti sitt sem einstaklingar og meðan kjörtímabil þeirra varir skuli þeir ekki taka þátt í neinni starfsemi sem sé ósamrýmanleg sjálfstæði þeirra, hlutleysi eða kröfum sem gerðar eru til fulls dómarastarfs. Samkvæmt 23. gr. eru dómarar kosnir til níu ára og þá má ekki endurkjósa. Kjörtímabil dómara rennur út þegar þeir verða 70 ára.

Þann 28. mars 2012 samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins leiðbeinandi reglur, nr. 40 (2012), um val á dómaraefnum sem koma til greina í embætti dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Í þeim reglum má m.a. finna leiðbeiningar við mat á þeim skilyrðum sem ráðherranefndin telur dómara við dómstólinn þurfa að uppfylla. Sjá tengla á vef Evrópuráðsins á vef innanríkisráðuneytisins undir flokknum auglýsingar. Þar er einnig að finna upplýsingar varðandi starfskjör og stöðu dómara við mannréttindadómstólinn, auk annarra viðeigandi gagna og upplýsinga varðandi val á dómara og dómaraefnum.

Sérstök athygli er vakin á því að dómstóllinn gerir þá kröfu að dómari hafi gott vald bæði skriflega og munnlega á öðru tveggja opinberra tungumála réttarins, þ.e. ensku eða frönsku, og nokkurn skilning á hinu. Dómstóllinn leggur áherslu á að á listanum séu dómaraefni af báðum kynjum.

Hér með gefst þeim sem áhuga hafa á að vera tilnefndir af Íslands hálfu sem dómaraefni við mannréttindadómstólinn kostur á að senda innanríkisráðuneytinu umsókn sína eigi síðar en 11. febrúar 2013. Umsóknir og fylgigögn óskast send til innanríkisráðuneytisins, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík og á netfangið [email protected].

Er þess óskað að umsóknir berist á íslensku, ensku og jafnframt frönsku ef unnt er á sérstökum umsóknareyðublöðum Evrópuráðsins. Tengil er að finna á heimsíðu innanríkisráðuneytisins undir flokknum auglýsingar.

Til þess að hraða afgreiðslu umsókna og bréfaskiptum er áskilið að umsækjendur gefi upp netfang sem notað verður til að eiga samskipti við umsækjendur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um tilnefningu liggur fyrir.

Innanríkisráðherra mun skipa fimm manna dómnefnd til að meta umsóknir þeirra sem áhuga hafa á að vera tilnefnd sem dómaraefni. Óskað verður eftir tilnefningum Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og utanríkisráðuneytisins. Innanríkisráðherra mun skipa formann nefndarinnar án tilnefningar. Mun dómnefndin skila umsögn um umsækjendur og gera rökstudda tillögu um hver þeirra teljist hæfust til að vera tilnefnd. Tilnefningar stjórnvalda verða byggðar á þessari tillögu.

Frekari upplýsingar veitir Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri, í síma 545 9000, netfang: [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta