Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarpsdrög kynnt um breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt erlendra aðila

Á vegum innanríkisráðuneytis hafa verið samin drög að frumvarpi að breytingu á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna sem varða skilyrði fyrir eign erlendra aðila til að öðlast fasteignaréttindi hér á landi. Breytingin miðar að því að afmörkuð verði nánar undanþáguheimild ráðherra til að veita erlendum aðilum eignar- eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Frumvaprsdrögin eru hér með kynnt til umsagnar og ábendinga á vefnum eins og kappkostað er að gera á vegum ráðuneytisins.

Lög nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna hafa tekið allmiklum breytingum frá setningu þeirra og hafa þær breytingar smám saman aukið við heimildir erlendra aðila til að öðlast fasteignaréttindi hér á landi, einkum með vísan til skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Við smíði frumvarpsins er það sjónarmið meðal annars til skoðunar í þessu sambandi að gengið hafi verið lengra en skylt var í aðlögun íslensks réttar að EES-rétti í kjölfar þess að íslenska ríkið tókst á hendur skyldur samkvæmt EES-samningnum. Að auki hafi ýmsar forsendur undanþáguheimilda laganna breyst sem hafi leitt til þess að gildandi lög veiti rýmri heimildir en vilji löggjafans stóð upphaflega til.

Á síðustu árum hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að lagagrundvelli eignarhalds á fasteignum á Íslandi, meðal annars í tengslum við kaup innlendra sem erlendra aðila á landi hérlendis. Aukinn skilningur hefur verið á því að endurskoða þurfi laga- og stjórnvaldsfyrirmæli á þessu málefnasviði og vísast í því samhengi m.a. til tveggja þingsályktunartillagna sem bornar voru upp á Alþingi á 140. löggjafarþingi þess.

Tvær álitsgerðir

Í tengslum við þessar athuganir hefur innanríkisráðuneytið aflað tveggja álitsgerða, annars vegar frá Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Valgerði Sólnes lögfræðingi. Hins vegar frá Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum, og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en þar er fjallað sérstaklega um reglur EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og fjárfestingu í fasteignum.

Með frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar á almennum skilyrðum þess að einstakir menn öðlist eignar- eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Mælt verði fyrir um það að einstakir menn þurfi að vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi, þó með þeim fyrirvara að réttur hinna síðargreindu einskorðist við fasteign hér á landi til að halda þar heimili og/eða frístundahús, enda fylgi þeim einungis venjuleg lóðarréttindi en ekki önnur réttindi, svo sem veiðiréttur eða vatnsréttindi.

Lagt er til að heimild ráðherra til að veita undanþágu frá almennum skilyrðum laganna með stjórnvaldsákvörðun til beinnar notkunar fasteignar í atvinnustarfsemi verði að hluta færð til fyrri vegar og afmörkuð nánar. Einnig er lagt er til að mælt sé fyrir um að ráðherra hafi heimild til að veita leyfi til að víkja frá almennum skilyrðum laga nr. 19/1966 með stjórnvaldsákvörðun samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur sérstök tengsl við Ísland, svo sem fyrir sakir ætternis, og vill öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi til að halda þar heimili og/eða frístundahús.

Breyting á reglugerð

Auk lagabreytingarinnar liggja fyrir drög innanríkisráðuneytis að breytingu á reglugerð nr. 702/2002, um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum. Með reglugerðinni yrði skýrt mælt fyrir um það að rétturinn til frjálsra fjármagnsflutninga sé ekki sjálfstæður réttur, heldur einungis liður í því að EES-aðilar geti öðlast fasteignaréttindi hér á landi í tengslum við hina þrjá þætti fjórfrelsisins, þ.e. frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og þjónustustarfsemi. Niðurstaðan yrði sú að réttarástand samkvæmt eldri reglugerð nr. 697/1995 yrði tekið upp á nýjan leik og verður réttarstaðan þá í meginatriðum á sama veg og hún er að dönskum rétti.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta