Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi

Settur hefur verið á fót þverpólitískur og þverfaglegur samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi. Á vettvangnum sitja formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Vettvangnum er ætlað að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.

Ragna Árnadóttir er formaður samráðsvettvangsins og Katrín Olga Jóhannesdóttir varaformaður. Verkefnið heyrir undir forsætisráðuneytið, en er stýrt af ofangreindum aðilum.

Fyrsti formlegi fundur samráðsvettvangsins verður haldinn 11. febrúar næstkomandi.

Tilurð samráðsvettvangsins

Tilurð samráðsvettvangsins má rekja til óformlegra viðræðna á meðal stjórnmálaleiðtoga um hvernig best mætti koma slíkum umræðuvettvangi á fót m.a. á grundvelli skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company gaf út síðastliðið haust um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar undir nafninu Charting a Growth Path for Iceland. Viðfangsefnið er víðfeðmt og flókið og því er mikilvægt að sníða fyrirkomulag sem getur stuðlað að eins upplýstri og gagnsærri umræðu og kostur er. Skýrslan hefur stuðlað að uppbyggilegri umræðu og hafa margir hagsmunaaðilar tekið undir mikilvægi þess að móta heildstæða hagvaxtarstefnu fyrir Ísland til að tryggja áframhaldandi mikil lífsgæði í landinu. Í því samhengi er ekki síst mikilvægt að málefnaleg umræða eigi sér stað á meðal helstu ráðamanna og áhrifamanna innan samfélagsins um viðfangsefnið.

Í kjölfar viðræðna stjórnmálaleiðtoga og fjölmargra hagsmunaaðila hóf skrifstofa forsætisráðuneytisins formlega uppsetningu á umræddum samráðsvettvangi að beiðni forsætisráðherra og hefur verkefninu nú formlega verið hrint úr vör.

Meginmarkmið samráðsvettvangsins

Samráðsvettvangnum er ætlað að stuðla að heildstæðri og uppbyggilegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Í því felst að:

  • Skapa þverpólitískan umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið.
  • Móta heildstætt og óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika.
  • Fjalla um þau skilyrði og ákvarðanir sem þörf er á til að hægt sé að hrinda viðkomandi aðgerðum í framkvæmd.

Fyrirkomulag og þátttakendur samráðsvettvangsins

Við samsetningu samráðsvettvangsins var lögð rík áhersla á að tryggja breiða þátttöku helstu hagsmunaaðila efnahagslífsins. Ferlið í heild samanstendur af tveimur tengdum einingum, formlegum samráðsvettvangi og sjálfstæðri verkefnisstjórn samráðsvettvangsins.

  • Samráðsvettvanginn skipa formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunaaðilar í hópi launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Samráðsvettvangurinn kemur til með að ræða og gefa efnislegt álit sitt á aðgerðum sem sjálfstæðri verkefnisstjórn er falið að móta. Listi yfir meðlimi samráðsvettvangsins.
  • Sjálfstæð verkefnisstjórn samráðsvettvangsins vinnur með samráðsvettvanginum og ber ábyrgð á mótun tillagna um aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika. Viðfangsefnum verkefnisstjórnar verður skipt í fimm málaflokka; þjóðhagslegt umhverfi, innlendi þjónustugeirinn, alþjóðageirinn, auðlindageirinn og opinberi geirinn. Efnislegri vinnu verkefnisstjórnar verður stýrt af Friðriki Má Baldurssyni, prófessor.

Dagskrá og upplýsingagjöf samráðsvettvangsins

Gert er ráð fyrir að meðlimir samráðsvettvangsins hittist á fjórum formlegum fundum fram til haustsins 2013. Samhliða mun efnisleg vinna eiga sér stað hjá sjálfstæðri verkefnisstjórn vettvangsins. Fyrsti fundur samráðsvettvangsins verður haldinn í Hörpu, þann 11. febrúar næstkomandi. Frekari upplýsingar um dagskrá fundarins og framhaldsfundi verða birtar síðar.

Sett verður á laggirnar heimasíða fyrir verkefnið þar sem hægt verður að nálgast allar helstu upplýsingar um verkefnið, dagskrár funda og það efni sem er til umræðu hverju sinni.

Nánari upplýsingar veita Ragna Árnadóttir í síma 840-0745 og Friðrik Már Baldursson í síma 825-6396.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta