Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

EFTA-dómstóllinn sýknar Ísland – Icesave-málinu lokið

Dómur EFTA-dómstólsins í Icesave- málinu felur í sér að Ísland er sýknað af kröfum ESA um að vera lýst brotlegt við EES-samninginn. Dómstóllinn hafnar því að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum. Það er mikið ánægjuefni að málstaður Íslands hafi orðið ofan á í Icesave-málinu og með niðurstöðu EFTA-dómstólsins er lokið mikilvægum áfanga í langri sögu.

Ísland hefur frá upphafi haldið til haga þeirri lagalegu óvissu sem verið hefur um hvort ríki beri ábyrgð á greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda og lagt þunga áherslu á mikilvægi þess að fá úr því skorið fyrir dómstólum. Á því voru hins vegar ekki raunhæfir möguleikar fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA ákvað að skjóta samningsbrotamáli sínu til EFTA-dómstólsins.

Með dóminum er lokið samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA í Icesave-málinu. Lagaleg niðurstaða liggur fyrir og ekki er gert ráð fyrir frekari eftirmálum vegna þess af hennar hálfu. Málið hefur verið einkar erfitt viðureignar bæði innanlands og í erlendum samskiptum og olli meðal annars miklum töfum í framvæmd efnahagsáætlunar stjórnvalda. Nú er Icesave-málið ekki lengur fyrirstaða við endurreisn íslensks efnahagslífs.  

Mikilvægt er að halda því til haga að greiðslur úr þrotabúi Landsbankans munu halda áfram óháð niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Virði eigna þrotabúsins er nú metið á 1.517 milljarða króna sem er um 200 milljörðum króna umfram forgangskröfur sem nema 1.318 milljörðum króna. Af þessum forgangskröfum eru 1.166 milljarðar vegna Icesave-innstæðureikninga en um 150 milljarðar króna vegna heildsöluinnlána m.a. frá sveitarfélögum, líknarfélögum o.fl.  sem líka hafa fengið greitt. Úr búinu hafa nú þegar verið greiddir 660 milljarðar króna upp í forgangskröfurnar eða um 50% af heildarfjárhæð þeirra. Af því hafa um 585 milljarðar króna runnið til greiðslu upp í kröfur vegna innstæðna á Icesave-reikningum. Það er fjárhæð sem samsvarar röskum 90% af þeim hluta sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna lágmarkstryggingar.

Gert er ráð fyrir að Icesave-kröfurnar greiðist að fullu af  réttum skuldara þeirra, þrotabúi Landsbankans. Setning neyðarlaganna haustið 2008 þar sem innstæðum var veittur forgangur á almennar kröfur leiðir til þessarar niðurstöðu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta