Breytingar á barnalögum kynntar sýslumönnum
Innanríkisráðuneytið stóð í síðustu viku fyrir kynningu fyrir sýslumenn landsins á breytingum á barnalögum nr. 76/2003 sem samþykktar voru á Alþingi á síðasta ári. Breytingarnar taka til ýmissa atriða varðandi forsjá, búsetu og umgengni en mál á því sviði eru meðal verkefna sýslumannsembætta.
Um kynninguna sáu Jóhanna Gunnarsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild HÍ, sem var formaður nefndar sem samdi upphafleg drög að frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, og Eyrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri sýslumannsins í Reykjavík. Fjallað var um undirbúning og aðdraganda að lagasetningunni og nýmæli laganna, einkum er snerta störf sýslumanna.
Unnið er að innleiðingu laganna á vegum ráðuneytisins með margvíslegum hætti og er meðal annars stefnt að því að setja sem allra fyrst nánari reglur um ýmsa þætti þeirra þar á meðal um ný ákvæði um ráðgjöf og sáttameðferð.
Fundinn sóttu fulltrúar frá flestum sýslumannsembættum landsins.