Skipulagðar hreinsunaraðgerðir hafnar í Kolgrafafirði
Hreinsunaraðgerðirnar miða að því að hreinsa grút og dauða síld úr fjörunni fyrir framan bæinn Eiði. Keyrt verður með grútinn á urðunarstað en síldin aftur á móti plægð niður í fjöruna.
Bjarni Sigurbjörnsson bóndi á Eiði er ánægður með það hvernig verkið vinnst enda séu aðstæður eins góðar og hægt er að hugsa sér; sól, blankalogn og straumar hagstæðir.
Á fjöru í dag hafa traktorsgröfur ýtt dauðri síld niður í stóra skurði sem grafnir hafa verið og síðan er mokað yfir jafnóðum til að koma í veg fyrir að síldin fljóti upp.
Þegar fellur að síðdegis verður síðan hafist handa við að fjarlægja grút úr flæðarmálinu. Leggja þarf vegspotta niður fjöru og útbúa þar ramp til að hægt sé að sturta beint í gáma sem síðan eru keyrðir á urðunarstað í Fíflholtum.